Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:13:23 (3936)

2003-02-18 15:13:23# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Af ræðu hv. þm. að dæma virðist hann harla ánægður með ástandið á leigumarkaðnum og virðist í engu deila skoðun með okkur á því neyðarástandi sem er á markaðnum og þeir sem við þurfa að búa hafa marglýst yfir. Það er ekki að ástæðulausu sem bæði BSRB og ASÍ hafa verið að kalla eftir átaki í uppbyggingu leiguíbúða. Það er ekki svo að biðlistarnir séu að styttast. Ég bið hv. þm. að athuga það. Þeir hafa verið að lengjast. Um 2.000--3.000 manns eru á biðlistum. Ástæðan er fyrst og fremst sú vaxtahækkun sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á leiguíbúðum. Það er hægt að byggja hér þúsundir leiguíbúða á kjörum sem fólk ræður ekki við eins og þessi ríkisstjórn hefur verið að gera. Það gagnast bara ekki þeim 2.000--3.000 einstaklingum og fjölskyldum sem nú bíða eftir leiguíbúðum.

Það er töluverður munur á núverandi ástandi og því þegar jafnaðarmenn stjórnuðu vegna þess að þá var láglaunafólki gefinn kostur á því líka að eignast húsnæði með því að við niðurgreiddum vexti til uppbyggingar á félagslegum íbúðum. Við lánuðum fólki 90% lán með 2,4% vöxtum til eignar\-íbúða og sátt var um það hjá þeim sem þá stjórnuðu að hafa bara 1% vexti á leiguíbúðum. Nú er fólki boðið upp á 3,5% vexti og 4,5% vexti ef um félagasamtök er að ræða, en 3,5% hjá öðrum, og síðan 5,6% í viðbótarlán og það eru engar smábreytingar sem verða hér á vaxtakjörum.

Hv. þm. ber saman hver leigukjörin mundu verða og segir að þetta sé sambærilegt við 3,5% vexti. Við segjum að leiga á þriggja herbergja íbúð muni verða 24--30 þús. á mánuði. Við erum þá að gera ráð fyrir ýmsum öðrum aðgerðum sem hv. þm. hefur ekki tekið tillit til, eins og að stimpilgjöld falli niður hjá framkvæmdaraðilum leiguíbúða og jafnframt kannað hvort veita eigi afslátt af gatnagerðargjöldum o.s.frv. Við erum því að tala um margþættar aðgerðir.

En það er auðvitað líkt sjálfstæðismönnum, herra forseti, að þeir hafa aldrei neinar áhyggjur af fólki sem er á leigumarkaðnum og það hefur komið fram í máli hv. þm.