Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:39:25 (3968)

2003-02-18 17:39:25# 128. lþ. 81.11 fundur 610. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (lækkun gjalds) frv. 19/2003, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:39]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga sem finna má á þskj. 973 um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Í frv. þessu er lögð til nokkur lækkun á vörugjaldi af ökutækjum sem eru 5 tonn eða minna að heildarþyngd, grindum með hreyfli og yfirbyggingum, þar með talið ökumannshúsum, fyrir vélknúin ökutæki úr 15% og 20% í 13%. Lækkunin er til að auka samræmi í uppbyggingu vörugjalda á ökutæki og lögð til til þess að draga úr hvata innflutnings þyngri ökutækja sem bera ekkert vörugjald en nokkuð hefur borið á því að ökutækjum sem ekki ná 5 tonnum að heildarþyngd sé breytt til þess að þau nái þeirri þyngd fyrir álagningu vörugjalds. Þetta á einkum við um ökutæki sem aðallega eru notuð til vöruflutninga. Þau eru nefnd í b-lið 4. tölul. 4. gr. núgildandi laga en til einföldunar og til þess að gæta samræmis á milli þeirra flokka sem finna má í 3. og 4. tölul. 4. gr. núgildandi laga er lagt til að þessir töluliðir verði sameinaðir í einn tölulið ásamt öðrum þeim ökutækjum sem í þeim flokki eru og bera 13% vörugjald.

Í öðru lagi er í frv. þessu, herra forseti, lögð til lækkun vörugjalds af bifreiðum sem eru sérstaklega útbúnar og notaðar til líkflutninga. Lækkunin er úr 30% og 45% eftir atvikum í 10% eða 13% miðað við sprengirými aflvélar.

Á undanförnum árum hefur vörugjald verið lækkað af ökutækjum til atvinnurekstrar. Tillagan um að lækka gjöld á þessari tegund bíla tekur mið af fyrri lækkunum á undanförnum árum og er þar helst litið til leigubifreiða, bílaleigubifreiða og bifreiða til ökukennslu.

Það er að sjálfsögðu erfitt að meta nákvæmlega, herra forseti, hvað þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir kunna að hafa í för með sér að því er varðar tekjur ríkissjóðs en sé miðað við innflutning á þessum ökutækjum á árinu 2001 kemur í ljós að tekjur ríkisins á því ári hefðu orðið 60 millj. kr. minni hefðu þessar breytingar þá verið komnar til framkvæmda. Miðað við hve hratt markaður breytist er erfitt að spá um það hvort sú tala er nákvæmlega rétt varðandi árlegt tekjutap eða ekki. Fer það að sjálfsögðu eftir því hvort breytingin hefur áhrif á fjölda þeirra bíla sem innfluttir eru í þessu skyni.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að 1. umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.