Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:27:31 (3980)

2003-02-18 18:27:31# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:27]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var eins og mig varði að hv. þm. hefur ekki velt þessum málum fyrir sér út frá sjónarmiðum kjósenda heldur er upptekinn af sjálfum sér og sínum flokki.

Það sem ég var að reyna að segja við hv. þm. var að á síðustu missirum og síðustu árum hefur vaxandi þungi verið á bak við þá kröfu að kjósendur fái á kjördegi að hafa meiri áhrif á uppröðun á framboðslista sínum en nú er. Ef hægt er að tala um þetta í alvöru. Það er út frá þeim punkti sem nauðsynlegt er að ræða kjördæmamálið. Ef maðurinn er þeirrar skoðunar, eins og mér skildist hv. þm. vera, að kjósandinn eigi að hafa sem minnst áhrif á það hverjir af framboðslistanum komist á þing eða hvernig framboðslistinn er yfirleitt upp settur, þá er sjálfsagt að stefna að því að landið verði eitt kjördæmi eins og hv. þm. vill. Um þetta snýst málið.

Það er í raun mjög undarlegt að sami flokkur og talar um milliliðalaust lýðræði skuli að hinu leytinu flytja frv. sem hlýtur að hafa í för með sér að Alþingi veikist, m.a. vegna þess að nálægð kjósandans við þingmanninn verður minni en áður. Auðvitað er þetta í algerri mótsögn. Auðvitað felur þetta í sér að hv. þm. Samfylkingarinnar hafi ekki hugsað málið í botn og eru á einhverju sveimi í huganum þegar kemur að þessu máli.