Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:37:25 (4012)

2003-02-19 14:37:25# 128. lþ. 83.4 fundur 541. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræður um þetta umdeilda og að mörgu leyti merkilega mál og tek undir ýmislegt sem hér hefur komið fram. Ég bendi á að það sem kallar kannski hvað helst á frestun upptöku samræmdu prófanna er að þó að ákvörðun hafi verið tekin um þau fyrir mörgum árum, þá var ekki ljóst fyrr en í lok desember á síðasta ári hvernig framkvæmdinni yrði háttað og í hvaða grein yrði prófað. Þess vegna tel ég brýnt að fresta upptöku á samræmdum prófum um óákveðinn tíma og endurskoða alla framkvæmdina frá grunni í samráði við þá aðila sem að henni koma og ná þannig víðtækri sátt um framtíðarskipan samræmdra prófa, þannig að þau megi vera til að bæta og efla framhaldsskólastigið en verði ekki til þess, eins og fram kom í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að draga úr fjölbreytileika og sjálfstæði skólanna, sem er einn helsti aðall íslenskra framhaldsskóla hve þeir eru fjölbreytilegir að gerð og uppbyggingu.

Það má alls ekki verða svo, herra forseti, að upptaka samræmdra prófa verði til þess að yfir á þær greinar sem prófað er í samræmt færist meginþungi kennslunnar og sá metnaður sem til staðar er heldur á þær greinar sem skólarnir hafa möguleika á að kenna. Því skora ég aftur á hæstv. menntmrh. að fresta upptöku samræmdra prófa um óákveðinn tíma og ná þannig víðtækri sátt og samstöðu um málið.