Sementsverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:42:05 (4014)

2003-02-19 14:42:05# 128. lþ. 83.5 fundur 554. mál: #A Sementsverksmiðjan hf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég beini spurningu til hæstv. iðnrh. varðandi málefni Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi. Eins og kunnugt er hafa málefni verksmiðjunnar verið mjög í brennidepli undanfarna marga mánuði vegna samkeppnismála og undirboða frá fyrirtækinu Aalborg Portland hf. sem hefur hafið innflutning fyrir nokkru á sementi til Íslands og er nú með u.þ.b. 20% hlutdeild í sementssölu hér innan lands. Mjög mikilvægt er að fá umræðu um málefni Sementsverksmiðjunnar í framhaldi af þeim umræðum sem voru um hana á síðustu mánuðum og við gerð síðustu fjárlaga.

Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja hæstv. iðnrh. um hver niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA varðandi samkeppnisstöðu Sementsverksmiðjunnar hf. hafi orðið.

Í öðru lagi langar mig að fá svör hæstv. iðnrh. við því hvernig fjárreiður verksmiðjunnar standa í augnablikinu. Eins og kunnugt er lagði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð til við gerð síðustu fjárlaga að vandi Sementsverksmiðjunnar yrði leystur tímabundið með því að auka hlutafé ríkisins í verksmiðjunni, en hæstv. ríkisstjórn fór aðrar leiðir og þess vegna spyr ég: Hvað líður kaupum ríkisins á lóð Sementsverksmiðjunnar hf. að Sævarhöfða 31 í Reykjavík ásamt tilheyrandi mannvirkjum, samanber heimild í 7. gr. fjárlaga fyrir árið 2003? Hæstv. ríkisstjórn ákvað að fara þá leið að selja þá eign til að losa um peninga fyrir verksmiðjuna í stað þess að auka hlutafé eins og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafði lagt til. Það er mikilvægt að fá svör við því hvar þessi mál standa.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að fá svör við því hver verða næstu skref iðnrn. varðandi málefni Sementsverksmiðjunnar hf. en eins og kunnugt er liggur fyrir þáltill. hér í þinginu, í hæstv. iðnn., þar sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á að gerð verði róttæk úttekt á því hver hlutur Sementsverksmiðjunnar hf. geti orðið í förgun orkuríkra úrgangsefna í framtíðinni og er það stórmál eitt og sér.

Virðulegi forseti. Það eru þessar þrjár spurningar sem mig langar til að fá svör við frá hæstv. iðnrh. varðandi málefni Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi.