Embætti umboðsmanns neytenda

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:54:58 (4020)

2003-02-19 14:54:58# 128. lþ. 83.6 fundur 532. mál: #A embætti umboðsmanns neytenda# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Neytendavernd er á meðal brýnustu hagsmunamála almennings. Neytendavernd á Íslandi er tiltölulega lítil þó að samkeppnislög, Neytendasamtökin og ýmislegt fleira bæti þar svo sannarlega úr. Það er mikilvægt að til komi róttækar lagalegar úrbætur á réttarstöðu neytenda og að brotið verði í blað hvað varðar réttindi almennings gagnvart verslun og þjónustu hvers konar.

Sterk hefð er fyrir góðri neytendavernd á Norðurlöndunum og til dæmis um það eru þar starfandi sérstakir embættismenn, umboðsmenn neytenda, auk neytendastofnana á vegum hins opinbera og frjálsra félagasamtaka. Neytendasamtökin íslensku hafa lengi óskað eftir því að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns neytenda hér á landi. Stjórnvöld hafa fram að þessu hafnað því og telja að Samkeppnisstofnun gegni þessu hlutverki. Áherslur sem varða samkeppni og neytendavernd fara hins vegar ekki alltaf saman eins og blasir við í því fyrirkomulagi sem við búum við og getur það farið eftir áherslum embættismanna hvort skuli setja í fyrsta sæti atriði er lúta að samkeppni eða atriði er lúta að neytendavernd.

Ég tel, herra forseti, mjög mikilvægt að embætti umboðsmanns neytenda verði sett á laggirnar. Er það stór þáttur í að efla neytendavernd á Íslandi sem er eina norræna ríkið þar sem ekki er starfrækt sérstakt embætti umboðsmanns neytenda. Skora ég á hæstv. viðskrh. að beita sér fyrir því að slíku embætti verði komið á fót.

Þing Neytendasamtakanna hafa ítrekað lýst því yfir að þau telji ófullnægjandi að Samkeppnisstofnun fari með framkvæmd laga um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd og undir það tek ég heils hugar. Neytendaverndin hefur liðið fyrir of nána sambúð við samkeppnismálin. Þessu þarf að breyta og til þess er stofnsetning embættis umboðsmanns neytenda langbesta leiðin.

Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskrh. hvort til standi að koma á fót embætti umboðsmanns neytenda.