Skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:20:10 (4030)

2003-02-19 15:20:10# 128. lþ. 83.7 fundur 555. mál: #A skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Vinstri grænir á Snæfellsnesi efndu til almenns borgarafundar í Stykkishólmi um málefni skelfisksvinnslunnar í fyrradag. Þar fluttu sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar og Náttúrustofunnar í Stykkishólmi fyrir Vesturland fyrirlestra um stöðu mála. Þar kom fram að þörf er á verulega auknum rannsóknum á lífríki Breiðafjarðar og því sem lýtur að hörpudisknum og einnig að lífríki honum tengdu. Fram kom að auka þarf þarna verulega fjármagn, vinnu og kannski líka bara pólitískan vilja til að taka á.

Staðan er svo alvarleg, herra forseti, að hér þarf að bregðast enn fastar við en mér fannst hæstv. sjútvrh. gefa tilefni til, þó svo að ég efist ekki um hans sterka vilja í þeim efnum.

Nú þegar þarf að liggja fyrir til hvaða aðgerða verður gripið til þess að tryggja rekstur fyrirtækjanna og atvinnu sjómanna, báta- og landvinnslufólks til þess að brúa bil sem hugsanlega getur skapast þarna.