Þjónusta við aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:27:28 (4034)

2003-02-19 15:27:28# 128. lþ. 83.8 fundur 560. mál: #A þjónusta við aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda. Tilefnið er að fyrir sex árum ákvað ríkisstjórnin að verja 12 millj. kr. á því ári til barna- og unglingageðdeildar Ríkisspítalanna til að koma á fót upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda í samvinnu við aðra sem vinna að málaflokknum.

Þetta var gífurlega mikilvægt mál og mikið í umræðunni á þeim tíma vegna þess að ráðgjöf er ómetanleg öllum foreldrum þegar ógæfan ríður yfir og ekki var aðgangur að neinni ráðgjöf á þeim tíma um hvað ætti að gera og hvernig ætti að bregðast við.

Síðar kom fram í svari við fyrirspurn minni að ráðinn hefði verið geðlæknir, félagsráðgjafi og sálfræðingur með sérhæfingu í meðferð ofvirkra barna og barna með hegðunartruflanir í kjölfar þessarar samþykktar, og að sérhæfðum hjúkrunarfræðingi hefði verið falið að veita fyrstu ráðgjöf þegar um vímuefnavanda unglinga er að ræða. Þessi fjölgun ætti að gera barna- og unglingageðdeild kleift að auka þjónustu við foreldra, m.a. að veita frumráðgjöf, og auka getu barna- og unglingageðdeildar til að taka á móti og greina börn með hegðunartruflanir, ofvirk börn, en þetta eru börn í áhættuhópi hvað varðar vímuefnanotkun.

Það er engin launung á því, virðulegi forseti, að á þeim tíma sem þessi umræða fór fram höfðu mjög margir efasemdir um að barna- og unglingageðdeild réði við það verkefni sem upplýsingaþjónustan var. Deildin var á þeim tíma aðþrengd. Hún var í nokkru fjársvelti og gífurlegar kröfur voru gerðar til starfsemi hennar sem hún átti fullt í fangi með að sinna. Ótti okkar margra var að þrátt fyrir að bætt væri þarna við starfsfólki þá veitti ekki af því bara til að sinna hefðbundinni þjónustu sem fyrir væri hjá deildinni.

En ráðuneytið lýsti því yfir í umræddu svari að hefja þyrfti forvarnavinnu fyrr með því að styrkja greiningu og meðferð og að eftirfylgd barna væri mjög mikilvæg, og ég tek undir það.

Nú vill svo til, virðulegi forseti, að ég er að koma af fundi í Foreldrahúsinu. Fram kom að ástandið hefur versnað mjög mikið. Yngri krakkar eru í neyslu og það er algengt núna að hringt sé út af 13 ára börnum --- að stærstum hluta eru það stúlkur þegar þau eru svona ung --- sem hverfa að heiman, jafnvel fleiri nætur í viku. Ástandið er slæmt og Foreldrahúsið á fullt í fangi með að sinna sínum þætti. En hvað hefur gerst í upplýsingaþjónustunni margumræddu?