Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 10:35:09 (4042)

2003-02-26 10:35:09# 128. lþ. 84.91 fundur 442#B geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[10:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þann 30. janúar var útbýtt fyrirspurn frá þeirri sem hér stendur um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga, hvert umfang hennar væri, hve hátt hlutfall stofnanaþjónustu væri annars vegar og þjónustu utan sjúkrahúsa hins vegar, um samvinnu félagsmála- og heilbrigðisyfirvalda og hve stór hópur ungmenna sem væri í vanda fengi enga aðstoð, hvaða áform væru um að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og hvort hún yrði á nýjum barnaspítala.

Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar minnar og að málefni barna- og unglingageðdeildar væru þar með til þinglegrar meðferðar hefur ekki verið unnt að biðja um utandagskrárumræðu um leið og þingfundir hæfust að loknu nefndahléi þótt þetta sé eitt alvarlegasta málið sem komið hefur upp á undanförnum mánuðum og snúi að börnum og unglingum. Á þessu vek ég athygli hér.

Ég tel þó mikilvægt að geta þess að heilbrrh. hefur tjáð að svarið muni berast í dag. Ég tel samt að Samfylkingin muni óska eftir umræðu um þetta mál vegna þess umfangs sem það hefur fengið í fjölmiðlum að undanförnu þó að ég geti ekki dæmt um svarið fyrir fram.

Ég vil líka láta það í ljósi, virðulegi forseti, að nefndir hafa starfað ítrekað frá árinu 1998. Fínar tillögur liggja fyrir um hvernig halda skuli á þessum málum en þetta snýst um fjármagn. Þjónustusamningur þar sem Barnaverndarstofa lagði af mörkum 40 millj. til barna- og unglingageðdeildar hefur ekki verið endurnýjaður og bæði forstjóri Barnaverndarstofu og yfirlæknir barna- og unglingageðdeildar hafa undanfarna daga staðfest að þetta mikilvæga framlag hafi ekki skilað sér til þjónustu við unglinga eins og til var ætlast. Þess vegna lítur nú út fyrir að þetta stóra mál snúist um peninga.

Ég vek athygli á þessu og vænti þess að svar við fyrirspurn minni berist á þessum fyrsta degi að loknum nefndadögum.