Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 10:37:53 (4044)

2003-02-26 10:37:53# 128. lþ. 84.91 fundur 442#B geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[10:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. hafði eftir mér, lokadrög að svari við fyrirspurninni eru í yfirlestri hjá okkur og ég vona, og veit, að svari við fyrirspurn þingmannsins verður dreift á Alþingi í dag. Við höfum reynt að kappkosta í heilbrrn. að svara öllum þeim fjölmörgu fyrirspurnum sem berast og munum kappkosta það áfram. Við munum svara þessari fyrirspurn ítarlega og vanda til svarsins eins og við getum í þessu alvarlega máli.

Ég vildi aðeins nefna varðandi eitt atriði sem kom fram í efnislegri umfjöllun hv. þingmanns um þetta mál --- hér er vissulega um alvarlegt mál að ræða --- þó að þjónustusamningurinn við Barnaverndarstofu hafi ekki verið endurnýjaður hef ég fengið gögn um að þeir fjármunir sem þar er um að ræða hafi skilað sér til barna- og unglingageðdeildarinnar. Það hafa vaxið til hennar fjármunir. Hins vegar hefur komið upp vandi á síðustu mánuðum sem hefur verið til umfjöllunar og við munum kappkosta að finna lausnir á. Ég vildi láta það koma fram í þessari umræðu en ég er vissulega tilbúinn að svara öllum þeim fyrirspurnum og þingmálum sem berast um málið.