Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:23:45 (4083)

2003-02-26 14:23:45# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður hefur eina mínútu þá tekst manni ekki alveg að botna allt hérna. En það er rétt skilið hjá hv. þm. að eins og þetta er sett fram --- og það kemur fram í umsögn okkar --- þá munu stjórnvöld, þegar og ef þar að kemur að svona skattar verða lagðir á, taka mið af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er auðvitað mjög eðlilegt að það sé gert og eðlilegt að fyrirtækið vilji hafa svona ákvæði inni í samningnum. En svo er spurning: Hvernig verður það gert?

Það er hægt að sjá fyrir sér að maður leggi svona skatta á með almennum hætti þannig að þeir sem eru yfir einhverjum ákveðnum mörkum í losun beri gjöldin. Þá koma líklega fleiri en álfyrirtæki til greina, hugsanlega Sementsverksmiðjan, hugsanlega stór sjávarútvegsfyrirtæki eða aðrir. En það er alveg skýrt að jafnræðisreglan verður að gilda. Ég get alveg skilið af hverju Alcoa vilji ekki að þeir einir séu teknir út úr í þessu samhengi.