Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:23:24 (4086)

2003-02-26 15:23:24# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ýmislegt sem ég hef í sjálfu sér athugasemdir við sem fram kom í ræðu hv. þm. en það eru sérstaklega tvö, þrjú atriði sem ég vildi nefna.

Í fyrsta lagi það að búið sé að henda 5--6 milljörðum í undirbúning, og það er talað eins og það sé fjármagn sem hafi verið kastað á glæ. Ég er margbúin að segja og það er margbúið að koma fram að það sem Landsvirkjun hefur lagt í undirbúning í sambandi við þessa framkvæmd kemur til baka í orkuverðinu, það er hluti af kostnaðinum við virkjunina. Það er því ekki hægt að tala um að þetta sé eitthvert fjármagn sem hafi verið hent í undirbúning og muni aldrei skila sér, og það er ekki hægt að tala um að hægt hefði verið að taka þá fjármuni og setja í eitthvað allt annað, eins og hv. þm. talaði hér áðan.

Svo er það að hvert starf kosti svona óskaplega mikið og að það sé ekki forsvaranlegt að stjórnvöld skuli standa að því að búa þarna til störf sem séu svona dýr. En stjórnvöld eru bara ekkert að búa til þessi störf. Þetta er fjárfestir, það er fyrirtækið Alcoa sem er fjárfestir og byggir þessa verksmiðju. Og hvað eitt starf kostar hjá þessu fyrirtæki skiptir mig engu máli. Ef það sér hag sinn í því að byggja verksmiðjuna og gerir það og hefur einhvern arð af því þá er það bara þeirra mál. Það skiptir mig engu máli. Það skiptir mig máli að skapa störf og ég er ekki að leggja peninga í það.

Síðan í þriðja lagi í sambandi við þá beiðni sem kom fram frá hv. þm., að fá upplýsingar í sambandi við ESA, þá er það þannig í lögum að þetta varðar fjölþjóðastofnun. Þetta er mál sem er í vinnslu og þess vegna er ekki samkvæmt lögum æskilegt að veita þessar upplýsingar. En þær verða eflaust gerðar opinberar þegar þar að kemur og málinu er lokið.