Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:29:54 (4090)

2003-02-26 15:29:54# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ekki efast ég eitt augnablik um afstöðu hv. þm. um þetta mál en ég hlýt að gera alvarlegar athugasemdir við ýmsar dylgjur og rangfærslur sem fram komu í ræðu hennar. Ég hlýt líka að gera athugasemd við þá fullyrðingu hennar að hún ein hv. þingmanna skoði þetta mál af alvöru. Málið hefur verið skoðað betur en flest önnur mál í hv. iðnn. sem og í öðrum nefndum.

Ég geri líka athugasemd við þá fullyrðingu hv. þm. að umhverfissamtök og umhverfissjónarmið hafi hvergi fengið að komast að í þessu ferli. Hv. þm. veit betur. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum felst í því ferli öllu að umhverfissamtök eða einstaklingar koma sjónarmiðum sínum að. Þess vegna settum við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Ég mótmæli líka þeirri fullyrðingu hv. þm. að hinn nýi búnaður sem Alcoa notar í staðinn fyrir Norsk Hydro-búnaðinn valdi meiri mengun. Nettóniðurstaðan er sú að vegna breyttrar tækni er heildarmengunin minni.

Það er líka rangt hjá hv. þm. að stórir reykháfar séu hvergi leyfðir í Evrópu. Ég hygg að hv. þm. hafi ferðast um Evrópu, m.a. séð kjarnorkuverin, séð ýmsar iðnaðarverksmiðjur víða í Evrópu með reykháfum mun hærri en hér er verið að ræða um.

Hv. þm. fullyrti það í andsvari í morgun að vegna þess að hæstv. umhvrh. hefði úrskurðað í málinu, þá væri verið að brjóta lög í þessu máli. Þá hlýt ég að spyrja hv. þm. hvort hæstv. settur umhvrh. sem úrskurðaði í Norðlingaöldu hefði þá líka verið að brjóta lög. En ég ítreka það að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum hefur hæstv. ráðherra fullt vald til að úrskurða, byggt á þeim upplýsingum sem koma á hans borð.