Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:37:04 (4094)

2003-02-26 15:37:04# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lét líta svo út sem við gerðum sérlega slakar kröfur til álfyrirtækja á Íslandi með tilliti til mengunarskatta. Það er alls ekki þannig, virðulegur forseti. Það er ekki verið að borga neina mengunarskatta á koldíoxíðmengun í nágrenninu. Evrópusambandið er að reyna að koma upp kvótakerfi til framtíðar hjá sér og þar verður áliðnaðurinn ekki skattlagður. Þannig gilda ekki aðrar kröfur hjá okkur að þessu leyti en hjá öðrum ríkjum í nágrenni okkar. Þær eru hinar sömu. Það er ekki verið að innheimta mengunarskatta frá þessum fyrirtækjum. Af hverju ættum við þá að gera það? Það er fráleitt að halda því fram að við séum með sérstakar ívilnanir að þessu leyti vegna álfyrirtækisins sem hugsanlega rís á Austurlandi.

Einnig var talað um Kyoto-bókunina í ræðu hv. þm. og látið líta svo út að hún væri mjög slæm. Vinstri grænir hafa alltaf talað mjög illa um hana og sagt að við fengjum þar sérstakar undanþágur og eitthvað slíkt. Við fengum ákveðið sérákvæði þar sem alþjóðasamfélagið viðurkennir að hnattrænt sé það okkur í hag að nota vistvænu orkuna okkar til framleiðslu í stóriðju í staðinn fyrir önnur lönd sem nota kol og olíu og sum hver kjarnorku. Ég hef því aldrei skilið að Vinstri grænir skuli ekki styðja íslenska sérákvæðið í Kyoto-bókuninni.

Við getum alveg rifist um einstakar virkjanir. Það er allt í lagi að rífast um þær. En það að Vinstri grænir geti ekki stutt íslenska sérákvæðið í Kyoto-bókuninni er mér algerlega óskiljanlegt. Það er átta sinnum betra fyrir lofthjúpinn að nota okkar orku og ég skil ekki af hverju Vinstri grænir geta ekki viðurkennt það. Ég bara spyr: Getur hv. þm. ekki fallist á að það er gott fyrir lofthjúpinn að við fengum íslenska ákvæðið þrátt fyrir að við getum rifist um einstakar virkjanir? Það er allt annað mál. Getur hv. þm. ekki fallist á að það sé betra fyrir lofthjúpinn að nota okkar orku en kol og olíu ?