Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 23:48:43 (4120)

2003-02-26 23:48:43# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[23:48]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Reyndar var engu beint beinlínis til mín í þessu seinna andsvari. Það er nú þannig, eins og hann orðaði það, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs tóku að sér verja og koma í veg fyrir óafturkræf spjöll á náttúru landsins. Ég sagði það í ræðu minni. Ég lít ekki á mig, þó að ég sé að samþykkja þetta verkefni, sem umhverfissóða. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að njóta og nýta náttúruna. Þetta er ein af okkar auðlindum, fallvötnin, sem við komumst ekki upp með annað en að nýta Íslendingum til framdráttar. Að sjálfsögðu á að ganga eins vel um þau eins og hægt er og ég gat um það áðan að sannarlega hefði ýmislegt gerst í því ferli, m.a. sem umhvrh. gat um sérstaklega og tók hér upp. Því ber auðvitað að fagna.

Ég stend við það sem ég sagði. Stundum hafa umhverfissinnar farið langt út fyrir velsæmismörk. Ég ætla ekki, af tillitssemi við þá, að taka dæmi af þeim miklu mótmælum sem voru í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar þegar málið kom til umræðu þar.