2003-02-27 00:02:15# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[24:02]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill stundum vera svo þegar ég spyr hv. þm. Steingrím Sigfússon út í afstöðubreytingu frá þeim árum sem hann sat í ríkisstjórn til dagsins í dag að þá er því svarað þannig að það er gert lítið úr og annað slíkt og gert þá lítið úr þeim sem spyr í einfeldni sinni um hvað hafi breyst, vegna þess að ég var náttúrlega ekki á þingi þegar þetta var.

En svörin eru alltaf á sama veg. Það er lítið gert úr því og talað er niður til manna. Það er út af fyrir sig allt í lagi og ég verð bara að lifa við það. En ég ítreka það sem ég sagði, herra forseti: Ég spurði einfaldrar spurningar, þ.e. hvað hefði breyst, vegna þess að afstaða þingmannsins var klár. Hann studdi byggingu álvers, ekki á Keilisnesi þar sem vinur minn, Jón Sigurðsson vildi byggja það, heldur úti á landi, sem lið í byggðamálum. Þessari afstöðu er ég svo hjartanlega sammála hv. þingmanni. En hvers vegna fæ ég ekki svar við því hvað hafi breyst? Af hverju berst hv. þm. svo gegn þessari framkvæmd núna þegar á að byggja álver og byggja það úti á landi til að koma í veg fyrir frekari byggðaröskun? (Forseti hringir.) Hvað hefur breyst?

Herra forseti. Ég verð bara að lifa við það að fá ekki svarið við spurningunni heldur fá bara svona góðlátlegt lítilsvirðingartal. Ég verð bara að lifa við það.