Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:45:48 (4183)

2003-02-27 14:45:48# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að bera fram tvær spurningar til hv. þingmanns en fyrst þetta: Af því að hann vék að því í ræðu sinni hver væri hættulegastur um þessar mundir er a.m.k. hægt að endurtaka hér það sem hefur komið fram í fréttum að það hefur valdið Bandaríkjamönnum og þeim sem næstir Bandaríkjaforseta standa verulegum áhyggjum hversu alvarlegum augum þjóðir heims líta Bandaríkjaforseta nú vegna framgöngu hans. Þetta var athugasemd.

Fyrri spurning mín er þessi: Skil ég þingmanninn rétt að hann telji að það sem við horfum upp á og þau átök sem eru í gangi snúist miklu meira um olíu en um 11. september og viðbrögð við hryðjuverkum og þau sjónarmið sem sett hafa verið fram í þeirri umræðu?

Í öðru lagi, og það er kannski hin alvarlega spurning mín til hv. þingmanns: Hvaða augum lítur hann Sameinuðu þjóðirnar? Hvaða augum lítur hann það ef öryggisráðið fullskipað kemst að einhverri niðurstöðu og hún t.d. verður á þá lund í fyllingu tímans að þeir vilji grípa til einhverra óyndisúrræða sem við mundum kalla svo? Þá er ég að vísa til þess að í öllum störfum mínum hef ég heyrt það, m.a. frá vinstri hópnum í Norðurlandaráði, í vinnu þar, að þeir sem ekki vilji NATO vilji Sameinuðu þjóðirnar í öndvegi, þeir sem ekki vilji Evrópusambandið vilji Sameinuðu þjóðirnar í öndvegi. Og ef við erum sammála um að Sameinuðu þjóðirnar séu í öndvegi, hvernig berum við okkur að ef þær komast að niðurstöðu, jafnvel þó að við séum ósátt við hana, en þær hafa talið sig leiða mál til lykta og endanlegrar umræðu um að til einhverra aðgerða skuli grípa?