Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:04:08 (4203)

2003-02-27 16:04:08# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ef í ályktunum um Ísrael eru ákvæði um að fari Ísraelar ekki að þessum ályktunum sé heimilt að beita þá valdi tel ég víst að menn muni framfylgja þeim. Ég held að það sé ekki þannig í þeim ályktunum. Það er hins vegar svo í ályktunum um Írak. Um það snýst málið. Hvernig á að knýja menn til þess að hlýta ályktunum Sameinuðu þjóðanna? Þá verða menn að lesa ályktanirnar og fara eftir því sem í þeim stendur. Menn verða að hafa þrek til að gera mun á þessu þegar þeir fjalla um þetta mál eins og önnur. Menn geta ekki lagt allt að jöfnu og reyna að afsaka einræðisherrann með því að miða mál hans við eitthvað annað.

Ég var ekki að fjalla um hryðjuverkamenn sérstaklega þegar ég talaði um nauðsyn þess að stemma stigu við Saddam Hussein. Ég var að tala um það sem felst í ályktunum Sameinuðu þjóðanna, að koma í veg fyrir að hann ráði yfir gjöreyðingarvopnum og sjá til þess að hann uppfylli þau skilyrði sem honum voru sett árið 1991 varðandi þann þátt. Það þarf að vera unnt að komast að hinu sanna um það undanbragðalaust og knýja manninn til þess að hlíta þeim ályktunum og fara að þeim.

Varðandi þær aðstæður sem geta skapast hér í heiminum til að Íslendingar ákvæðu að vera algjörlega varnarlausir. Ég get ekki séð þær aðstæður fyrir mér þannig að unnt sé að draga upp þá mynd með neinum skynsamlegum hætti. Ég sé heldur ekki að nokkur þjóð líti þannig á að henni sé til góða að afsala sér öllum rétti til varna. Síðan er það ávallt spurning hvernig menn taka á því. Það höfum við Íslendingar gert í sögunnar rás með mismunandi hætti en í rúm 60 ár í góðu samstarfi við Bandaríkjamenn.