Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:09:59 (4206)

2003-02-27 16:09:59# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágæta ræðu þar sem kenndi margra grasa að venju. Íraksmálið og þau vandamál sem sprottið hafa kringum það hafa að sjálfsögðu borið hæst í því sem rætt hefur verið um í dag, hvort lýðræðiselskandi þjóðir nái saman um að koma á kné manni sem hefur kúgað eigin þjóð og margoft sýnt að svífst einskis til að halda völdum. Það er löngu ljóst að menn láta þetta ekki lengur yfir sig ganga. Auðvitað er erfitt að segja nákvæmlega til um hvernig réttlætinu verður náð í þessum efnum. Ég lýsi yfir mikilli ánægju minni með það hvernig hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin hefur eindregið stutt Bandaríkjamenn og Breta í þeim áformum sem þeir hafa haft um að koma frá þessum einræðisherra sem ekkert virðir.

Það hefur að sjálfsögðu verið áhyggjuefni fyrir alla þá sem hafa skoðun á varnarmálum Evrópu og samstarfi innan NATO að slík ósamstaða skuli hafa ríkt innan NATO vegna andstöðunnar innan Evrópusambandsins. Það veldur áhyggjum ef það veikir samstarf þessara þjóða þegar kemur að því að grípa til ráða sem vestræn ríki telja nauðsynleg við erfiðar aðstæður.

Það er ekki langt síðan, herra forseti, að Vestur-Evrópusambandinu, Evrópustoð NATO þar sem allar NATO-þjóðirnar og Evrópusambandsþjóðirnar áttu fulltrúa, þ.e. þeim þætti í varnarmálum Evrópu var breytt. Evrópusambandið tók yfir allar stofnanir sem heyrðu undir Vestur-Evrópusambandið. Hugmyndin með þeirri breytingu var að einfalda tengslin við Bandaríkin milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, að styrkja öryggis- og varnarmátt Evrópuþjóðanna og einnig var talið nauðsynlegt að sýna að Evrópuríkin sjálf leystu sín mál.

Við sem erum áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og tillögurétt innan Vestur-Evrópusambandsins mótmæltum þessum breytingum á sínum tíma. Það voru fyrst og fremst Bretar og ekki síst Bandaríkjamenn sem voru einnig mjög efins um að þessi þróun væri rétt. Staðreyndin er sú að innan Vestur-Evrópusambandsins hafði náðst mjög góð tenging milli þessara þjóða og Bandaríkjanna. Þar hafði myndast gott traust með tengingu við NATO, með sendiherrum frá öllum aðildarríkjum sem bæði sátu í VES og NATO. Þarna hafði náðst mikil og góð samstaða sem hafði styrkt samskiptin milli þessara þjóða í varnar- og öryggismálum. Margir voru hins vegar hræddir við að þessi breyting gæti leitt til þess að gjá myndaðist milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna eða jafnvel að NATO mundi veikjast.

Því miður hefur ýmislegt af þessu komið fram, í bili alla vega. Það gerðist fyrst í tengslum við Afganistan og ekki síður núna, að sumar Evrópusambandsþjóðirnar sem eru jafnframt í NATO neita að bregðast við ósk Tyrkja um að taka þátt í vörnum landsins ef til kæmi. Sem betur fer hafa sumar þessara þjóða snúið frá þeirri skoðun en þetta segir okkur að ýmislegt þurfi að laga á þessu sviði.

Ég tel mjög nauðsynlegt fyrir Íslands hönd að halda uppi því samstarfi sem verið hefur innan Vestur-Evrópusambandsins. Það er eina þingið þar sem allir þjóðkjörnir þingmenn Evrópu hafa rétt til þátttöku og menn geta þar skipst á skoðunum um varnar- og öryggismál sem skipta máli fyrir þær þjóðir sem í hlut að eiga.

[16:15]

Framtíðarráðstefna Evrópusambandsins sem núna stendur yfir og verið er að undirbúa hefur tekið á því hvernig opna eigi möguleika þjóðkjörinna þingmanna Evrópuríkja. Það hefur komið fram í þessum undirbúningsviðræðum að Evrópusambandið eða Evrópuþingið ásamt fulltrúum Evrópusambandsins og ráðherrum hafa í raun lagst gegn því að heimila aðgang þjóðkjörinna þingmanna að varnar- og öryggismálum Evrópusambandsins. Margir telja það mjög slæma þróun og ekki hvað síst fyrir þau lönd sem ekki eru í Evrópusambandinu en eru í NATO. Það er ljóst að ef af þessu verður þá töpum við Íslendingar þeim tengslum sem við höfum haft og að þessu leyti mundi staða okkar veikjast.

Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. hafi skoðun á þessu sérstaka máli og að hann reyni eftir megni að koma þeim sjónarmiðum á framfæri að málstað Íslands sé best borgið með því að tryggja veru okkar þarna sem mesta og að aðkoma okkar að umræðu um varnar- og öryggismál Evrópu verði óbreytt frá því sem var, enda var það upphaflega í samþykktum sem gerðar voru af NATO-ríkjunum á sínum tíma að þessi breyting með stofnanir Vestur-Evrópusambandsins yfir í Evrópusambandið sem hefur veikt Vestur-Evrópusambandið ætti ekki að breyta neinu um stöðu þeirra ríkja sem eru í NATO en utan Evrópusambandsins. Enn sem komið er hefur ekkert komið í staðinn að mínu áliti sem setur okkur í þá stöðu sem við vorum í fyrr. Ég held að nauðsynlegt sé að berjast fyrir stöðu okkar á þessum vettvangi.

Ég ætla aðeins að minnast á stækkun Evrópusambandsins, herra forseti. Heilmikil umræða hefur farið fram um það mál eins og gefur að skilja. Ég hef heyrt á hæstv. utanrrh. að hann hafi mikinn áhuga á því að kanna möguleika á þátttöku í starfi Evrópusambandsins. Auðvitað þurfa að vera fyrir því ákveðin skilyrði sem verður að uppfylla, m.a. varðandi fiskveiðar. Ég hef nú verið sömu skoðunar og hæstv. utanrrh. í þeim efnum að ekki sé nein forsenda til að óska eftir inngöngu í Evrópusambandið á þessu stigi.

Ég hef svo aftur á móti velt fyrir mér einu máli sem mér finnst dálítið uggvekjandi, það er varðandi sjávarútveginn á Íslandi og ég held að geti komið Evrópusambandinu við, þ.e. að stórútgerðir á Íslandi eru nú að krefjast þess að kvótaþakið verði hækkað úr 12% í 20. Háttvirtur formaður sjútvn. hefur lýst því yfir í sjónvarpi að hann telji þetta eðlilegt. Ég tel þetta aftur á móti mjög óheppilegt og að þetta gæti í rauninni orðið hættulegt því um leið og það gerðist þá yrði enn frekari samþjöppun í íslenskum sjávrútvegi að veruleika og við mundum sjá meiri röskun í byggðum landsins en við höfum nokkurn tímann séð fyrr. Við mundum sjá að á örfáum árum fækkaði útgerðarfyrirtækjum kannski niður í fimm, eitthvað þar um bil, og staða þeirra sem ættu yfir kvótanum að ráða yrði gríðarlega sterk gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Ég hef heyrt það frá stórútgerðarmönnum í dag að þeir telja að ef gengisskráningin fari ekki að breytast og íslenska krónan að veikjast frá því sem nú er þá finnist þeim alls ekki fráleitt að færa fiskvinnsluna úr landi. Ef þessir aðilar verða orðnir svo sterkir í íslenskum sjávarútvegi að einungis fimm aðilar réðu yfir allri útgerð á landinu, í hvaða stöðu verða þá stjórnvöld til þess að bregðast við, þ.e. ef menn settu fram slíkar kröfur eins og ég hef nefnt? Þá veltir maður því fyrir sér hvort Evrópusambandið væri nokkuð síðri kostur að eiga við en þessir fimm stórútgerðarmenn sem réðu hér yfir öllum fiskinum í sjónum. Að því leyti til tel ég að menn verði að gá að sér því þó maður geti að mörgu leyti sagt að kvótakerfið hafi virkað vel þá getur þetta gengið það langt að ekki verði við unað þegar samþjöppunin verður slík að auðgildið og frekari hagnaður gengur langt út yfir allt sem snýr að hag fólksins í landinu.

Ég vil að lokum, herra forseti, aðeins fá að minnast á Alþjóðaviðskiptastofnunina eða OECD. Í Jóhannesarborg í sumar var mikið rætt um þessa stofnun og alþjóðaviðskipti sem gætu opnað leið fyrir fátæk ríki til þess að styrkja fjárhag sinn og eyða eða draga úr fátækt. Það sem hefur staðið í veginum fyrir því að þessi ríki gætu í raun eflt stöðu sína er að ríkar þjóðir hafa haft og hafa enn uppi tollamúra sem þessi fátæku ríki hafa ekki náð að yfirvinna. Auðug ríki Vesturheims hafa einnig beint sjónum sínum að orku sem fæst úr olíu og öðrum slíkum orkugjöfum sem hefur ekki hjálpað þeim ríkjum sem fyrst og fremst geta byggt upp orku í gegnum sólina eða með því að virkja sólina, t.d. með sólarrafhlöðum. Allt þetta hefur verið mjög dýrt. En mest af því fjármagni sem hefur farið til orkuuppbyggingar í heiminum hefur verið til að nýta olíulindir í Arabalöndunum.

Eitt af því sem talið var að við þyrftum að horfa sérstaklega til í þessu efni er að beina fjármunum frekar til að þróa sjálfbæra orkugjafa, eins og auðvelt er að koma upp í Afríku, en þó þannig að sjálfsögðu að þessi ríki geti staðið undir því. Það er gert með því að styrkja fyrirtæki sem framleiða búnað til þess að virkja sólina til raforkuframleiðslu og einnig með því að standa undir ábyrgðum sem fyrirtæki þurfa sem vilja beina sjónum sínum að vanþróuðum ríkjum með þessum hætti.

Ég vil því beina því til hæstv. utanrrh. að hann reyni að hafa áhrif á Alþjóðaviðskiptastofnunina til að hún beini sjónum sínum enn frekar að vanþróuðum ríkjum Afríku sem sannarlega þurfa á því að halda að geta leitað í þessa sjóði. Það verður að vera hægt að breyta reglum og koma á samstarfi við þessi ríki til þess að minnka þá ömurlegu fátækt sem þarna er og allir sjá sem þangað fara.