Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:51:00 (4223)

2003-02-27 17:51:00# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur upplýst að hann telji að það hafi verið rangt að grípa inn í vandamálin á Balkanskaga með þeim hætti sem gert var. Ég vænti þess að hann telji þá að það hafi verið rangt fyrir alþjóðasamfélagið að grípa inn í bardagana og fjöldamorðin í Bosníu á sínum tíma, það hafi verið rangt að grípa á Milosevic með þeim hætti sem gert var. Og það hafi líka verið rangt að taka á Osama bin Laden með þeim hætti sem gert var og svæla hann og aðra út úr Afganistan. Það er gott að þetta kemur fram. En hv. þm. hefur jafnframt upplýst í umræðunni hér í dag að hann vilji ekki útiloka valdbeitingu. Og ég spyr hv. þm.: Í hvaða tilvikum og hvaða tilvik þurfa að vera fyrir hendi, hvers konar afbrot gegn mannkyni, til að valdbeiting sé réttlætanleg? Ég reikna með því að hann telji að valdbeiting hafi verið réttlætanleg í seinni heimsstyrjöldinni gegn Adolf Hitler. Mér finnst mikilvægt að hann upplýsi það vegna þess að hann hefur upplýst það hér að í ákveðnum tilvikum geti valdbeiting verið réttlætanleg. Hvenær í ósköpunum er það?