Norræna ráðherranefndin 2002

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 18:29:45 (4231)

2003-02-27 18:29:45# 128. lþ. 85.2 fundur 572. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2002# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[18:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka þessum tveimur framsögumönnum sem hér hafa talað, samstarfsráðherra Norðurlandaráðs og formanni Íslandsdeildar, og ég vil auðvitað taka undir það að góður árangur í norrænu samstarfi grundvallast á samskiptum ráðsins og ráðherraráðsins og þeim einstaklingum sem þar skipast á bekk. Það er afar mikilvægt að þessi öfl hlusti hvert á annað og skoði þörf á breytingum á starfsháttum. Samanber það sem samstarfsráðherra vék hér að að tilmæli ráðsins væru færri en beinskeyttari og þá jafnframt að ráðherraráðið fylgi eftir samþykktum Norðurlandaráðs.

[18:30]

Að sjálfsögðu skarast málefni í umræðunni um skýrslu ráðherra og Íslandsdeildarinnar en jafnframt hefur í umræðunni í dag um utanríkismál nokkuð verið komið inn á hin norrænu verkefni og norrænu stjórnmálin. Sjálf gerði ég að umtalsefni aukið svæðasamstarf á liðnum árum og áhersluna á hagsmuni ólíkra svæða sem virðist fara vaxandi. Þar má nefna heimskautaráðið, Vestur-Norðurlönd og norðlægu víddina sem er verkefni Evrópusambandsins en sem Norðurlandaráð hefur óskað aðkomu að. Ég setti fram þá skoðun mína að svæðasamstarf muni aukast í framtíðinni, verða sterkara og umfangsmeira og afmarkaðra innan Evrópusambandsins og hafa áhrif á þróun mála hjá okkur á Íslandi hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Virðulegi forseti. Ég bað um orðið í þessari umræðu því ég vildi fara nokkrum orðum um Norræna menningarsjóðinn þar sem ég er eini fulltrúi Íslands í stjórn sjóðsins. Ég óska sérstaklega eftir að bera fram þakkir til Sivjar Friðleifsdóttur, til samstarfsráðherra, og til menntmrh. varðandi þátt þeirra í að tryggja réttarstöðu sjóðsins. Það skipti mjög miklu máli að leiða það mál svo vel til lykta sem raun bar vitni. Ferlið sem laut að ráðherrum og ráðinu við breytinguna var allt mjög jákvætt, þ.e. innan ráðsins og hjá viðkomandi ráðherrum var ákvörðunin studd, sömuleiðis í flokkahópunum, í fagnefndinni, forsætisnefndinni og að lokum sem afgreiðsla frá Norðurlandaráði. Auk þess sem þessi vinna og ferlið með réttarstöðu sjóðsins hefur tekið nokkurn tíma þá hefur jafnframt verið unnið að ýmsum verkefnum, m.a. fyrirkomulagi styrkveitinga sjóðsins, bæði til að styrkja starfsemina og jafnframt til að leita nýrra leiða innan menningarsviðsins og til að efla það. Þar má nefna að umsóknardagsetningum hefur nú verið fjölgað úr tveimur í sex, þ.e. varðandi umsóknir sem eru undir 100 þúsund dönskum krónum. Með þessu viljum við vera svo sveigjanleg sem mögulegt er gagnvart menningarlífi í löndunum því afar brýnt er að mæta enn betur en hingað til þörfum þeirra sem að menningarmálum vinna og það ber sérstaklega að leggja áherslu á að Norræni menningarsjóðurinn styður menningarstarf í grasrótinni í þessum löndum, þ.e. allt frá kórum og ráðstefnum upp í stór verkefni sem fá framlög frá þessum sjóði og hann er mjög mikilvægur.

Ég vil líka geta þess að sjóðurinn hyggst standa fyrir svokallaðri norrænni myndlistarsýningu ársins. Þar verða veittar allt að 3 milljónir danskra króna til einstaks verkefnis en það verður líka að vera alveg sérstakt sýningarverkefni sem þarf að hafa norrænt sjónarhorn og breiða skírskotun, hvort heldur þarna er um sögulegt verkefni, nútímalegt eða eitthvert verkefni með framtíðarsýn að ræða. Fyrsta sýningin er áformuð árið 2005 og eftir það á slík sýning að vera á tveggja ára fresti. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því hvernig umsóknirnar verða sem berast sjóðnum, sérstaklega undir þessum hatti.

Á næstu árum eru uppi áform um að varpa kastljósi á málskilning í löndum okkar. Það er svið sem Norðurlandaráð, ráðherraráðið og norrænu félögin í löndunum okkar setja mjög á oddinn. Sjóðstjórnin hefur haft frumkvæði að rannsókn á skandinavískum tungumálaskilningi. Kannað verður hversu útbreiddur almenningur málskilningur er hjá aldurshópnum 16--19 ára. Það verður skoðað m.a. hvernig hann tengist bóklestri, kvikmyndum, tónlist, o.s.frv., þ.e. þessum þáttum frá Norðurlöndunum. Rannsóknin beinir líka sjónum að aðgangi að norrænum sjónvarpsstöðvum með tilliti til tungumálaskilnings. Þessi rannsókn tekur jafnframt til Íslands og Finnlands og henni á að ljúka árið 2004.

Að síðustu vil ég nefna að frá árinu 1998 hefur sjóðurinn tekið þátt í verkefni sem við getum kallað norræna menningarstefnu á breytingaskeiði. Að þessu verkefni hafa komið 60 vísindamenn innan og utan Norðurlandaráðs, þ.e. sem hafa unnið að rannsókninni. Sömuleiðis er varpað ljósi á menningartækifærin á sjálfsstjórnarsvæðunum og hjá Sömum á norðursvæðum Skandinavíu. Þetta er mjög spennandi verkefni og hefur tekið nokkurn tíma. Því verður nú fylgt eftir með ráðstefnuseríu. Þetta eru alls sex ráðstefnur. Ein þeirra verður haldin hér 9. og 10. maí í Norræna húsinu í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Ég hef kosið í þessari umræðu að segja nokkuð frá þeim merkilegu verkefnum sem eru í gangi á vegum Norræna menningarsjóðsins auk þeirra hefðbundnu verkefna að veita fjárhæðum allt frá 15--20 þúsund dönskum krónum og upp í, eins og hér hefur komið fram, 3 millj. kr. verkefni sem á að styðja, enda hafi þau það til að bera að ástæða sé til þess. Of lítið er fjallað um verkefni sjóðsins. En umfjöllun um hann á heima í þessari umræðu. Það væri ánægjulegt ef erlendar skýrslur væru ekki endilega settar á dagskrá þegar utanríkisumræða er á Alþingi því ég er sannfærð um að þá væru fleiri viðstaddir og hefðu áhuga á því að heyra frásagnir þeirra sem vinna að hverjum hinna afmörkuðu þátta utanríkissamstarfs okkar. En þessu hljótum við að breyta miðað við það hvernig málin hafa þróast.

Virðulegi forseti. Ég vil á ný þakka þessar skýrslur og sérstaklega biðja Siv Friðleifsdóttur að bera þakkir til samstarfsráðherra sinna fyrir þátt þeirra í að efla menningarsjóðinn.