Loðnuveiðar

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:28:13 (4261)

2003-03-03 15:28:13# 128. lþ. 86.1 fundur 455#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Möller lýsir hér alveg óvenjulegri vankunnáttu á fiskifræði loðnunnar og veiðum á loðnu. Loðnan er verðmætust þegar hún er að koma til hrygningar og er full af hrognum. Þá eru hrognin unnin og loðnan fryst. Það er mun verðmætara en á haustin eða sumrin þegar hún er veidd í bræðslu en væntanlega er það vegna þess að á þeim tíma liggur loðnan betur við veiðum og vinnslu úr heimabæ hv. þm., Siglufirði, heldur en hún gerir á þeim tíma þegar verið er að frysta hrognin og hrognafyllta loðnu. Þetta er alveg óvenjulegur málflutningur hjá hv. þm. sem yfirleitt kemur fram málefnalega varðandi sjávarútveginn og ég er mjög hissa á því að heyra þetta núna í svo mikilvægu og viðkvæmu máli sem loðnuveiðarnar eru um þessar mundir.