Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:11:19 (4303)

2003-03-03 18:11:19# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:11]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um lágmarksverð vísa ég áfram til þess að ég tel að það hefði átt að skoðast. Þetta mál er í meðferð dómstóla um það hvort um óleyfilegt verð á innfluttu sementi sé að ræða. Dómstólar geta verið lengi að fjalla um þetta mál og meðan eigandinn ekki styrkir eiginfjárstöðu fyrirtækisins eða bregst við því á annan hátt til þess að tryggja að verksmiðjan geti staðið af sér þetta meinta undirboð tel ég, já, að það hefði átt að kanna það að setja lágmarksverð á sement til þess að tryggja að verksmiðjan gæti starfað áfram þangað til niðurstaða fengist í það ágreiningsmál hvort um undirboð er að ræða.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um þátttöku Sementsverksmiðjunnar í hugsanlegum framkvæmdum fyrir austan tel ég í fyrsta lagi að Sementsverksmiðjan hefði átt að fá leyfi og tækifæri til þess að taka þátt í því útboði á sömu kjörum og aðrir sementsframleiðsluaðilar sem látið er að liggja í þessari frétt að sé ekki, heldur að hún eigi að vera útilokuð frá því. Það finnst mér ekki rétt, heldur eigi að kanna hvort það sé mögulegt að Sementsverksmiðjan geti tekið þátt í því.

Í öðru lagi, þó að ég ætli ekki að mæla með því, skiptir ríkisstuðningur við þessar framkvæmdir fyrir austan milljörðum króna, jafnvel tugum milljarða, beinn ríkisstuðningur við þær framkvæmdir, við Kárahnjúkastíflu og fyrirhugað álver. Við erum að tala um beinan og óbeinan ríkispening. Sementið hefði svo sem getað farið inn í það púkk þó að ég sé ekki að mæla með því að verið sé að greiða niður á þann hátt en bendi á samhengið.