Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 14:35:30 (4332)

2003-03-04 14:35:30# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[14:35]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við erum komin í 3. umr. um hið mikla og stóra mál sem hefur í raun hvílt á okkur í allan vetur, 3. umr. um álver við Reyðarfjörð. En það er meira en álver við Reyðarfjörð, því að á spýtunni hangir Kárahnjúkavirkjun og allt það jarðrask sem henni fylgir og öll þau óafturkræfu náttúruspjöll sem við vísvitandi erum að fara í.

Herra forseti. Við höfum talað um tilfinningar í þessu máli, að það sé stór hópur fólks sem láti tilfinningarnar ráða og hafi ekkert vit á því að það þurfi afl og kraft og atvinnu til þess að keyra áfram hagvöxt í landinu, það þurfi að vera verkefni í gangi sem drífi hagkerfið og geti staðið undir velferðarkerfinu.

Herra forseti. Ég er sannfærð um að þó að ég og margir fleiri höfum ríkar tilfinningar í þessu máli, þá gerum við okkur líka grein fyrir því að það þarf framkvæmdir, að kraftar þurfi að vera í gangi í atvinnulífi þjóðarinnar og umsvif til að halda uppi viðhlítandi hagvexti og við höfum haft. En það er spurning um að velja sér stefnu, að velja sér markmið. Við sem leyfum okkur að tala af tilfinningu um þetta mál höfnum stóriðjustefnunni, höfnum þessari þröngsýni, höfnum því að ekki sé hægt að skoða málið og undirstöðu atvinnulífsins með öðrum hætti en þessum.

Málið er það, herra forseti, að það er í raun og veru sama hversu ítarlegar ræður við höldum hér, þá er ég ekki að miða við lengd, heldur hversu mörg og mikilvæg gögn við leggjum hér fram, gögn sem ekki er hægt að hrekja, sem snerta náttúruna, sem snerta efnahagsmálin, sem snerta byggðamálin, sem snerta öll þau mál sem við komum inn á, þá gagna þau rök ekki. Við getum sýnt fram á að þetta sé í raun og veru sú vitlausasta leið sem hægt er að fara til að styrkja byggð og til að treysta efnahagslífið til lengri tíma. Það er alveg sama hvaða gögn við höfum hér í málinu vegna þess að þetta er pólitísk ákvörðun. Og þegar pólitísk ákvörðun er tekin eins og staðið er að þeirri hér, þegar stóriðjustefnunni er haldið svona til streitu, þá gagna engin rök. Það er ekki hlustað. Vegna þess að þegar ákvörðun er tekin þá er undirstaðan byggð undir ákvörðunina og það er allt látið passa og þegar það er komið saman, þá er alveg sama hvaða efasemdir koma fram og þó reynt sé benda á aðrar leiðir, það er ekki hægt að hagga neinu.

Bent hefur verið á að við sem íslensk þjóð séum að reyna að taka upp aðferðafræði annarra siðmenntaðra þjóða sem við viljum bera okkur saman við og lagaákvæði og alþjóðlega sáttmála sem við höfum undirgengist, að reyna að temja okkur vinnubrögð þar sem við förum skilvirkt yfir það að skoða áhrif framkvæmda á umhverfið, eins og við erum núna komin með lög um og okkur er skylt að gera. En við erum ekki búin að tileinka okkur þá hugmyndafræði og hugsun sem verið er að reyna að móta á alþjóðlegum vettvangi, að áður en maður tekur svo afdrifaríkar ákvarðanir um að byggja svona stóra stíflu eins og Hálslón verður, þá skuli það gert með því að byrja á að skilgreina: Til hvers þurfum við þessa virkjun? Til hvers ætlum við að gera þetta? Það geta verið mismunandi forsendur. Það geta verið byggðasjónarmið. Það getur verið það að menn hafi ákveðnar hugmyndir um að byggja upp nýjar atvinnugreinar eins og ný álver, eða þá að menn telji að einfaldlega þurfi meiri raforku inn í hið almenna kerfi sem víða þarf í fjarlægari löndum, nefnum bara eina álfu, Afríku. Þar hreinlega vantar orku inn á hið almenna kerfi og þar væri hugsanlega ástæða til að skoða akkúrat þetta: Þurfum við til að fá þessa orku að koma upp svona miklu uppistöðulóni?

Það er rétt á því stigi að skoða hvaða möguleika höfum við til þess að skaffa þessa orku? Eru það endilega vatnsaflsvirkjanir? Ef það er eina lausnin, hvernig er þeim þá best fyrir komið? Og reyna að velja þá lausn sem minnst raskar umhverfinu.

Þetta er miklu farsælli lausn og þó svo menn hafi í upphafi gefið sér einhverjar hugmyndir, þá bregst það ekki að þegar menn leggjast svo yfir þetta og fara að skoða málin betur án þess að vera búnir fyrir fram að binda sig í einhverja ákveðna niðurstöðu, þá er yfirleitt hægt að finna leiðir sem raska umhverfinu ekki eins mikið.

Nú má segja að að hluta til eigi lög um mat á umhverfisáhrifum að virka svona. En þau gera það ekki að því leytinu til að við förum ekki í þá skoðun fyrr en við erum búin að taka ákvörðun um einhverja ákveðna framkvæmd. Þá verðum við að skoða fleiri möguleika. Það er þarna grundvallarbreyting í ferlinu, í hugsunarhættinum, þar sem ákvörðunin eins og við tökum hana getur fest okkur í ákveðinni niðurstöðu, en ef við tækjum upp hina væru þarna fleiri lausnir eins og hugsanlega þær í þessu tilfelli að til að styrkja byggð á Austurlandi og styrkja efnahagskerfið til lengri tíma hefði hugsanlega mátt virkja Jöklu með öðrum hætti og byggja þá upp aðrar atvinnugreinar heldur en áliðnaðinn áfram.

Við gerum okkur öll grein fyrir því að álver, álframleiðsla, kallar á þessi stóru uppistöðulón og því er þetta niðurstaðan. Því er mikilvægt, herra forseti, að við hverfum frá þessari stóriðjustefnu og förum að taka upp aðra stefnu og horfa til framtíðar og byggja hér upp fjölbreyttara atvinnulíf og taka þessa grein af iðnaði út af kortinu, það er komið nóg. Sú framleiðsla sem er í landinu í dag og fyrirhugað er að bæta við á allra næstu árum er þjóðarbúinu næg undirstaða sem menn eru að leita eftir til að treysta ákveðinn stöðugleika sem hefur þó ekki alltaf verið bein lína, heldur sveiflast til og mun gera það enn frekar í framtíðinni.

Þetta vil ég segja í upphafi, að við sitjum sem sagt uppi með þessa pólitísku ákvörðun og allar þær ábendingar sem fram hafa komið, því miður kannski nokkrar of seint, ábendingar hagfræðinga og Seðlabankans og fleiri um þjóðhagsleg áhrif þessara miklu framkvæmda, þannig að ráðamönnum þjóðarinnar hefur ekki gefist ráðrúm til að hlusta, til að bakka, til að halda ekki sínum tímasetningum hvað varðar endanlega undirritun allra samninga. Þeir ættu því að gefa sér tíma núna þegar svona mörg rök hafa hnigið að því að þessar miklu framkvæmdir muni að öllum líkindum ekki gefa þann þjóðararð sem þeim er ætlað og munu því miður að öllum líkindum verða okkur þungur baggi fjárhagslega og alveg örugglega siðferðilega, bæði hvað varðar markaðssetningu okkar á sjálfbæru landi, sjálfbærri framleiðslu og sjálfbærum iðnaði eins og verið er að reyna nú á öllum sviðum.

[14:45]

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum alfarið hafnað þessari leið til að uppfylla þær þarfir sem hér eru sagðar liggja að baki, þ.e. að styrkja byggð á Austurlandi og styrkja þjóðarhag til framtíðar. Við höfnum þessari leið. Við viljum nú við 3. umr., þar sem eingöngu voru gerðar smávægilegar breytingar á frv. eins og það leit út sem skipta í raun sáralitlu þegar á heildina er litið, hafa þann varnagla að ekki verði farið í framkvæmdir fyrr en eftir kosningar og að við notum alþingiskosningarnar til að hafa jafnhliða almenna kosningu, þjóðaratkvæðagreiðslu um byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Við teljum að það hafi orðið nokkur vakning hjá þjóðinni á allra síðustu missirum til verndar umhverfinu. Þó að það séu ekki margir Íslendingar sem hafa ferðast um það svæði sem nú á að leggja undir lón við Kárahnjúka hefur þjóðin fengið að sjá þetta svæði, m.a. myndir Ómars Ragnarssonar, í fréttamyndum og eins umræðu um þessi mál. Nú síðast fékk þjóðin að sjá frétt af upphafi þeirra miklu framkvæmda sem þarna eiga að vera, þar sem verið er að ryðja skábraut niður í gljúfrið. Klettadrangarnir hrynja þar niður og náðu um tíma að stífla Jöklu. En það er bara upphafið að hinni stóru stíflu.

Herra forseti. Mér þykir nokkuð táknrænn sá ruddaskapur sem þarna fór fram þó að um lítinn sneiðing sé að ræða miðað við allar þær framkvæmdir sem eftir á að fara í á þessu svæði ef Alþingi fær sínu framgengt. Í svari iðnrh. við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem dreift var í gær á þskj. 1022 um þau framkvæmdaleyfi sem Landsvirkjun hefur þegar fengið, kom fram að Landsvirkjun hefði fengið leyfi til að gera þennan sneiðing þegar leyfi Náttúruverndar lægi fyrir. Nú vill svo til að Náttúruvernd kvaðst ekki munu svara þessari beiðni fyrr en búið væri að ganga frá öllum samningum, þ.e. að alveg ljóst væri að farið yrði í þessar framkvæmdir. Nú er ekki búið að skrifa undir neina samninga, það er gert með fyrirvara.

Rök Landsvirkjunar fyrir því að það hafi orðið að gera þennan sneiðing þó svo að leyfi Náttúruverndar lægi ekki fyrir voru að það lægi á að gera þetta því að tíminn væri naumur. Mér finnst þetta svar lýsandi dæmi um hvernig ruðst er áfram. Það er ekki borin virðing fyrir einu eða neinu og ruddaskapurinn er í fyrirrúmi. Ég veit að mönnum finnst þetta ekki mikið, að byrja og vinna sér í haginn, þetta sé nú allt að koma. En formsatriði eru formsatriði. Það er siðferðilega rangt að hefja þær framkvæmdir á virkjunarstað sem raska umhverfinu og ásjónu landsins til lengri tíma, að fara í slíkar framkvæmdir áður en búið er að ganga frá samþykki Alþingis á byggingu álvers í Reyðarfirði og undirrita samninga þó að mönnum liggi á.

Það er margt sem hangir á spýtunni. Þegar pólitísk ákvörðun er tekin og unnið eftir henni reynist erfitt fyrir ráðherra í ríkisstjórn að snúa til baka með þau loforð sem hann hefur gefið í kjördæmi sínu. Hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson gaf þau kosningaloforð að af stóriðju yrði í nánustu framtíð á Austurlandi og að Austurland mundi njóta fallvatnanna. Í sjálfu sér er hægt að taka undir það að horfa eigi til Austurlands ef nota á fallvötnin fyrir austan til að hafa tenginguna frá veitustöð til notanda sem stysta. En það er ekki hægt að skrifa upp á hvaða virkjunarframkvæmd sem er né heldur hvaða iðnað sem er og af hvaða stærðargráðu sem er.

Ég hef ekki verið mótfallin iðnaðaruppbyggingu á Austurlandi og virkjun fallvatnanna. En við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum vinna í sem mestri sátt við náttúruna. Við látum ekki nægja orðaflaum um sjálfbæra þróun, sjálfbæra þróun og sjálfbæra nýtingu orkunnar og fella allt þar undir. Þetta er ekki sjálfbær nýting orkunnar og samfélag sem eftir stendur verður ekki sjálfbært. Það skiptir máli í iðnaðaruppbyggingu að fyrir valinu verði iðnaður sem fellur að því byggðarlagi sem á að koma fyrirtækinu fyrir í og að orkan sé nýtt með sjálfbærum hætti ef um vatnsaflsvirkjun er að ræða. Eins mætti leita eftir öðrum orkugjöfum og leggja meiri áherslu á vindorkuna og gufuorkuna en gert hefur verið.

Þegar pólitísk ákvörðun er tekin miða menn allar ákvarðanir að henni. Það kom fyrst í ljós þegar hæstv. umhvrh. kvað upp úrskurð sinn varðandi Kárahnjúkavirkjun að öllu var þá snúið við varðandi úrskurð skipulagsstjóra og allra þeirra sérfræðinga sem þar höfðu komið að. Þá var öllu snúið á haus. Í úrskurði hæstv. umhvrh. Sivjar Friðleifsdóttur komu fram nokkrar breytingar sem tvímælalaust eru af hinu góða miðað við þessa miklu framkvæmd. En annað er ekki hægt að standa við og verður aldrei hægt að standa við. Það er ekki nóg að setja vöktun sem skilyrði ef eingöngu á að vakta það hvernig landið blæs upp og leirinn frá Jöklu eyðir landi og drepur gróður. Reyndin er sú að það er ekki hægt að koma í veg fyrir landeyðingu af hans völdum. Það er lítil sárabót að hafa þetta á pappír.

Í úrskurð hæstv. umhvrh. vantaði að mælt væri fyrir að vakta skyldi fyrirhugað virkjanasvæði frá því að úrskurðurinn var felldur. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. og umhvrh. og þá sem standa fyrir þessum miklu framkvæmdum hvort það hafi verið slys að setja ekki í gang vinnuhóp eða vinnu hjá Náttúrustofu Austurlands til að vakta svæðið, sérstaklega með tilliti til hreindýranna, frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp. Frá þeim tíma hafa verið framkvæmdir á svæðinu og frá því í haust umtalsverðar vegaframkvæmdir, brúarframkvæmdir og núna að bora göngin og vinna í gljúfrinu. Það fer að styttast í burð hjá hreindýrunum en það er engin vöktun á svæðinu hvað hreindýrin varðar. Það er mikilvægt að fylgjast með því hvaða áhrif þetta umrót sem stendur yfir hefur á hreindýrastofninn. Það nægir ekki að bíða eftir að bygging virkjunarinnar sem slík fari í gang.

Ég kalla eftir svörum við því hvort ekki eigi nú þegar að veita fé til Náttúrustofunnar svo hún geti staðið að þeirri vöktun sem er í verkahring hennar en hún hefur ekki fjármagn til, að vakta sérstaklega þessar framkvæmdir.

Stóriðjustefnan, herra forseti, keyrir á eina lausn, miðstýrða lausn sem í þessu tilfelli er allt að því stalínísk lausn. Einn vinnustaður, einn atvinnurekstur er settur niður og aðrar atvinnugreinar eiga að blómstra í kjölfar hins mikla og stóra álvers.

[15:00]

Það hafa verið gerðar þó nokkrar skýrslur um byggðamál og byggðaþróun og hvað það er sem hefur áhrif á búsetu og byggðaröskun. Það hefur verið bent á leiðir í því sambandi og það eru allt aðrar leiðir heldur en hér á að fara. Og það verður mjög stórt og mikið átak hjá sveitarstjórnarmönnum og í raun og veru hjá ríkisstjórninni að koma inn í þetta mikla verkefni með mótvægisaðgerðir inn á svæðið ef það á ekki að drepa niður aðra atvinnustarfsemi sem fyrir er, sem er ekki öll burðug, og ef það á ekki að hafa gífurleg áhrif á fiskiðnaðinn sem byggir á útflutningi, sérstaklega landvinnslan, og ferðaþjónustuna. Hvort tveggja eru atvinnugreinar sem menn hafa verið að byggja upp fyrir austan sem og annars staðar en sú mikla kollsteypa sem allt þetta verkefni mun hafa í för með sér mun hafa mikil ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar og ekkert síður inni á svæðinu heldur en á landinu öllu.

Einn svona stór vinnustaður getur vissulega treyst byggðina á því svæði en þá erum við að sama skapi að móta ákveðið umhverfi sem er ekki sjálfbært í sjálfu sér. Það er verið að sníða allt að einni stóriðju í staðinn fyrir að skapa það umhverfi að fleiri fyrirtæki blómstri á eigin forsendum, en ekki eingöngu til að þjóna þessu fyrirtæki. Þess eru dæmi og það hefur verið leitað fyrirmynda, m.a. til Årdals í Noregi þar sem byggðin á því svæði hefur styrkst en hún hefur styrkst á forsendum álversins frekar en sínum eigin. Því tala ég um framtíðarsýn og sjálfbæra þróun, þetta er spurning um hvaða framtíðarsýn við viljum hafa.

Þetta er, herra forseti, óafturkræf framkvæmd og þá eigum við að staldra við og hætta þegar umhverfisáhrifin verða svona mikil. Við höfum ekki siðferðilegt leyfi til þess að taka okkur það vald að fara svona með náttúruna, ekki bara til hagsbóta fyrir okkur ef þannig er litið á, heldur taka þetta land frá ókomnum kynslóðum og möguleikum ókominna kynslóða til þess að nýta landið á annan hátt. Það er ekki bara bundið tilfinningum og því að vera óraunsær að tala um að mótvægi við Hálslón og Kárahnjúkavirkjun gæti verið stór og voldugur þjóðgarður, einstæður frá náttúrunnar hendi og jarðfræðilega mjög merkilegur. Inni á þessu svæði er náttúra sem okkur ber að varðveita. Við erum þannig í sveit sett að það er auðvelt að komast til landsins, við höfum orðið flug í allar áttir og við höfum verið að byggja hér upp öfluga ferðaþjónustu. Hún hefur aðallega byggst á náttúru landsins og ef þjóðir eins og Bandaríkin, lönd í Afríku og heilu heimsálfurnar ná umtalsverðum árangri og tekjum með markaðssetningu á þjóðgörðum getum við það líka. Við höfum hér einstakt tækifæri og okkur ber að nýta það og varðveita, ekki með því að taka af stórt svæði fyrir virkjanalón því það verður aldrei hluti af þjóðgarði.

Ég vil aðeins staldra aftur við hugtakið ,,sjálfbær þróun``. Herra forseti, ég sat í morgun setningu búnaðarþings sem var mjög ánægjulegt. Þar hélt hæstv. landbrh. ræðu og talaði um möguleika okkar varðandi markaðssetningu á íslenskum landbúnaðarvörum. Það má með sanni segja að hann er bjartsýnn og ég er það líka, þ.e. ef við höfum hugtakið ,,sjálfbær þróun`` á hreinu, ef við notum það ekki eingöngu til markaðssetningar, heldur vitum fyrir hvað það stendur og vinnum samkvæmt því. Ég tel að með þessum framkvæmdum og uppbyggingu áframhaldandi stóriðnaðar vinnum við gegn þeirri hugmyndafræði sem á að nota sem markaðssetningu á landinu og sem gæðastimpil á íslenskar vörur. Við erum á sama tíma að vinna gegn þessum miklu hagsmunum okkar. Þetta verður innihaldslaus markaðssetning og hún er bara ómerk orð sem koma alltaf í bakið á manni fyrr eða síðar. Í henni verður holur og falskur tónn og okkur líðst ekki að halda uppi þeim merkjum nema vera sönn.

Hvað varðar þessar framkvæmdir, Kárahnjúkavirkjun og álverið, er sagan ekki öll sögð. Það er enn þá margt að koma í ljós. Það er margt sem á eftir að koma í ljós, t.d. varðandi álverið, við eigum eftir að fá að vita hvernig á að verjast mengun frá þessu stóra álveri. Það er ekki búið að ákveða það enn þá. Hugsanlega þurfa þeir Alcoa-menn ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því vegna þess að þeir munu ekki þurfa að borga umhverfisskatta og þess vegna munu þeir ekki þurfa að halda allri mengun í lágmarki. Það mun ekki kosta þá neitt, en þeir hafa val um það hvernig þeir munu koma mengunarvörnum sínum fyrir samkvæmt okkar kröfum. Þar mun hagkvæmnin að sjálfsögðu ráða að miklu leyti. Þetta er mál sem við eigum eftir að sjá hvernig verður leyst. Það liggur líka í loftinu og það kom fram í svari hæstv. iðnrh. við fyrirspurn hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem ég vísaði til áðan, en það er í þingskjali 1020 og er svar við þessari fsp. hv. þm., með leyfi forseta:

,,Hvernig er fyrirhugað að tryggja rekstraröryggi álvers í Reyðarfirði án tengingar yfir hálendið við meginflutningskerfi Landsvirkjunar á Suðurlandi?``

Í svarinu segir, með leyfi forseta:

,,Allt frá 1980 hefur verið reiknað með gerð svokallaðrar Sprengisandslínu sem tengir saman raforkukerfið fyrir norðan og sunnan, en endanleg tímasetning hefur ekki verið ákveðin. Við bilanir á vesturvæng byggðalínunnar getur rekstur hennar orðið óstöðugur, en það getur haft í för með sér óþægindi og jafnvel straumleysi á Norður- og Austurlandi. Sprengisandslína mundi leysa þetta vandamál til frambúðar. Kárahnjúkavirkjun styrkir heildarraforkukerfið og gæti því jafnvel frestað lagningu línunnar. Ekki er þó ólíklegt að talið verði nauðsynlegt að hefja lagningu línunnar innan næstu 10 ára.``

Það liggur í loftinu, herra forseti, að það mun koma lína frá Kárahnjúkavirkjun, bæði norður í land og yfir Ódáðahraun, og tengjast Sprengisandslínu. Svo lengi sem hagkvæmni rekstursins á að gilda eru þau rök sterkari en umhverfisrökin þótt ákvörðunin um línuna liggi ekki fyrir. Eins tel ég að Kreppa sé ekki óhult eins og staðan er í dag. Þegar við höfum það fordæmi að af hagkvæmnisástæðum átti að teygja sig inn í Þjórsárverin til þess að fá rafmagn til að fá uppistöðulón fyrir Landsvirkjun --- menn hikuðu ekkert við að fara inn í friðlandið og menn hafa heldur ekkert hikað við það að taka af Kringilsárrana sem er friðland líka --- hef ég enga trú á því að Landsvirkjun muni ekki leggja þau rök á borðið að það verði mjög hagkvæmt að fá vatn úr Kreppu og tengja yfir í fyrirhugaða virkjun og aðrennslisgöng til þess að fá meiri orku. Því tel ég að þessar stóru framkvæmdir séu bara upphafið og að við séum ekki búin að sjá fyrir endann á þeim.

Fleiri spurningar liggja í loftinu sem hefur ekki verið svarað því það hafa komið fram hugmyndir um áhrif virkjunarinnar sem slíkrar, þessara miklu þyngsla á berggrunninn þar sem á að reisa stífluna. Það er alveg ljóst að menn eru ekki á einu máli um hvaða áhrif þetta mikla farg getur haft á berggrunninn undir virkjuninni og það má segja að það verði bara að koma í ljós ef eitthvert óöryggi er varðandi burðarþol berggrunnsins. Ég tel að rannsóknatíminn á svæðinu hafi í alla staði verið of skammur, bæði hvað varðar dýralíf, plöntulíf og ekki síður berglög og möguleika á að reisa svo stóra stíflu þarna.

Hvað varðar kostnaðinn við framkvæmdirnar er reiknað með að þessi stóri pakki, álverið og virkjunin, muni skila arði í þjóðarbúið. Forsendurnar sem menn gefa sér til þess að fá út þennan arð eru byggðar á forsendum þeirrar pólitísku ákvörðunar að fara í þessa virkjun og keyra stóriðjuna áfram. En það er ljóst að ef byggingarkostnaður svo stórra framkvæmda á undanförnum árum er borinn saman hefur hann ætíð farið fram úr kostnaðaráætlun, allt að 85%, en meðalframúrkeyrslan hefur verið um 30%. Þetta tel ég að Landsvirkjun ætti að setja inn í reikninga sína og gera ráð fyrir að við gætum þess vegna legið einhvers staðar nær meðallaginu en undir þar sem það er ekki hægt að bera þessar framkvæmdir og þessa virkjun saman við þær virkjanir sem áður hafa verið reistar hér á landi eins og gert hefur verið. Þær eru allar minni í sniðum og gjörólíkar þessum framkvæmdum.

[15:15]

Ef virkjunarframkvæmdirnar af einhverjum ástæðum fara --- segjum þetta --- fram úr áætlun þá verður ekki bara tap á framkvæmdinni sem slíkri heldur tap fyrir þjóðarbúið til langs tíma. Þeir sem greiða þann mismun verða þá almennir notendur raforkunnar í landinu og önnur fyrirtæki. Við erum, herra forseti, að taka mikla áhættu.

Við höfum fengið að heyra það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við sjáum hvergi bjartan blett á þessari framkvæmd. Það er þá a.m.k. ekki hægt að segja að við höfum ekki dregið fram þær ábendingar, rök og aðvaranir sem menn ættu fyllilega að taka tillit til til þess að draga úr áhrifum þessara framkvæmda.

Við stöndum á alveg hreint ótrúlegum tímamótum núna rétt fyrir kosningar. Flokkarnir, hinir pólitísku flokkar, eru að setja sig í þær stellingar að afgreiða kosningaloforð sín. Það höfum við gert í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við höfum markað okkar stefnu inn í kosninguna. Ég sé ekki betur en að aðrir flokkar hafi farið þar fram með boð um skattalækkun og þá sérstaklega ríkisstjórnarflokkarnir. Núna rétt fyrir kosningar og rétt fyrir þessar miklu framkvæmdir er það mjög dregið í efa að þetta séu skynsamleg kosningaloforð, því á sama tíma og Seðlabankinn er uppi með aðvaranir ásamt mjög mörgum hagfræðingum um að það verði að hækka vexti, það verði að draga úr opinberum framkvæmdum og að þessar framkvæmdir muni á framkvæmdatímanum hafa mikil ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar, þá er mjög óskynsamlegt að koma með kosningaloforð sem eiga að gilda a.m.k. fjögur næstu árin inn á þennan mikla framkvæmdatíma. Á einhvern hátt passar þetta ekki. Þetta gengur ekki upp. Það mun ekki koma neinum í koll nema þjóðinni sjálfri ef þessir flokkar, ríkisstjórnarflokkarnir, verða hér áfram við völd, efna sín kosningaloforð og halda svo áfram með þessar miklu framkvæmdir.

Þegar þessum framkvæmdum lýkur, herra forseti, hvað þá? Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá er sagt að við félagshyggjufólk höfum ekkert vit á ríkisfjármálum og að við virðumst ekki skilja að umsvif þurfi í þjóðfélaginu til þess að halda uppi hagvexti. Við skiljum vel að peningarnir koma ekki af himnum ofan og við skiljum vel að til þess að tryggja hér góða atvinnu og stöðugt efnahagslíf þá verðum við að hafa fjölbreytnina að leiðarljósi. Ég vil spyrja á móti: Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að halda áfram að halda uppi hagvexti þegar þessum framkvæmdum lýkur? Verður þá bara hrun, eða í hvaða framkvæmdir á að fara næst? Ef þetta eru rökin til þess að halda uppi velferðarkerfinu, þ.e. ef við þurfum að hafa slíkar framkvæmdir í gangi til þess að uppfylla þarfir, a.m.k. stórs hóps verktaka og verktakafyrirtækja þó ekki væri annað, og ef það eiga að vera rökin til þess að bægja frá atvinnuleysi að halda þurfi uppi svo stórum og miklum virkjanafamkvæmdum til þess að keyra hér áfram stóriðjustefnuna, hvernig verður þá ástandið þegar þessum framkvæmdum lýkur? Ef þetta á að vera áframhaldandi stefna, hvar á þá að virkja næst? Við höfum ekki fengið að sjá rammaáætlunina um virkjanir fallvatna og gufuafls, vatnsafls og gufuafls. Þeirri framkvæmdaáætlun er haldið í klemmu því það vantar fjármagn til þess að ljúka þeirri vinnu. Það á sem sé að halda þessari forgangsröðun frá þjóðinni þar til búið er að velja hagkvæmustu kostina, hagkvæmustu að því leyti að framkvæmdalega og rekstrarlega sé best að fara í þá virkjanakosti. Það á sem sagt að halda rammaáætlun til hliðar þar til búið verður að fleyta rjómann af virkjanakostunum.

Hvernig eigum við að standa undir velferðarkerfinu til lengri tíma? Hvernig framtíð verður þetta í sjálfbæru samfélagi, eins og sagt er? Ríkisstjórnin flaggar á öllum sviðum að við séum hér með sjálfbærar framkvæmdir, sjálfbæra Kárahnjúkavirkjun. Hvernig ætlar hún að standa undir velferðarkerfinu öðruvísi en að keyra áfram þessa stefnu?

Herra forseti. Ég tel að á þessu sviði eins og svo mörgum þá eigum við að læra af öðrum þjóðum. Nágrannaþjóðir okkar hafa brennt sig á stóriðjustefnunni. Stóriðja og ein stór verksmiðja inn á ákveðið búsvæði er ekki byggðastefna sem skapar fjölbreytt atvinnulíf. Allt aðrir hlutir gera það og þá hafa aðrar þjóðir lagt sig fram við að taka upp vegna þess að það skilar svo miklu meiru. Það kostar minna. Það kostar minna fjármagn. Það kostar minna hvað varðar náttúruna og það skapar svo miklu fleiri störf. Þessar þjóðir framkvæma það sem margar byggðaáætlanir okkar og úttektir hafa bent á, framkvæma þær leiðir sem við ættum að fara. Þær byggja á menntun, nýsköpun, rannsóknum, góðum samgöngum, styrkingu grunnþjónustunnar og þær byggja á byggðum landsins og þeirri auðlegð sem hvert svæði hefur upp á að bjóða. Það er alveg hægt að taka sem dæmi, herra forseti, uppbyggingu Háskólans á Akureyri, ekki bara sem menntastofnunar, heldur hvað sá skóli, hvað sú stofnun hefur gert fyrir atvinnulífið á svæðinu. Það er að mínu mati sú leið sem við eigum að fara. Við höfum dregist aftur úr hvað menntunarstig þjóðarinnar varðar. Við eigum að gefa þar verulega í og ekki bara hvað varðar háskólanám, heldur iðnnám sem er að brotna niður hjá okkur. Við eigum að byggja upp framhaldsskólana betur en við höfum gert og færa þá menntun nær heimabyggð þannig að unglingar landsbyggðarinnar sitji ekki eftir, og byggja síðan á þeirri þekkingu sem unga fólkið okkar kemur með inn í þjóðfélagið.

Herra forseti. Áður en ég lýk við ræðu mína í þessu mikla máli, sem ég skal viðurkenna að hefur gengið mjög nærri mér, vil ég segja að ég hefði viljað og vil sjá heimabyggð mína og Austurland byggjast upp til framtíðar á öðrum forsendum en þessum. Ég veit að við höfum alla möguleika til þess. Við höfum fólk til þess að takast á við þau verkefni sem fjórðungurinn hefur upp á að bjóða ef stuðningur og skilningur yfirvalda er til staðar. Ég vil minna á að þessu máli er ekki lokið því það er fyrir nokkrum dómstólum og nokkrum dómstigum.