Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 15:32:47 (4337)

2003-03-04 15:32:47# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það kom mér á óvart að heyra að hæstv. heilbrrh. sé hér í gervi hæstv. iðnrh. Sannast sagna hélt ég að hann væri í gervi hæstv. umhvrh. En mönnum þykir eflaust ekki nauðsyn bera til þess að hæstv. umhvrh. sé á staðnum. Ég vil leyfa mér að spyrja hvar hæstv. umhvrh. er og hvort hún sjái ekki ástæðu til að vera hér við umræðuna? (Gripið fram í: Hún er erlendis.)

(Forseti (ÍGP): Forseti vill láta þess getið að hæstv. umhvrh. er í útlöndum þessa stundina.)

Þá óska ég eftir því að formaður umhvn. verði kallaður til þingsins til þess að vera hér við umræðuna, svo og formaður efh.- og viðskn. þingsins og í þriðja lagi formaður iðnn. þingsins.

(Forseti (ÍGP): Forseti skal sjá til þess að þessir ágætu menn verði kallaðir hingað. Þeir eru nú ekki allir í þinghúsinu, en hugsanlega úti á skrifstofu. Forseti skal sjá til þess að þeir verði kallaðir til.)

Framsfl. ályktaði um það á nýafstöðnu flokksþingi að til álita kæmi að þeir sem fengju ráðherratign úr röðum þingmanna afsöluðu sér þingmennsku. Ég hef nú sannast sagna mestar áhyggjur af þeim sem eru þingmenn án þess þó að vera ráðherrar, að þeir sjái ekki ástæðu til að vera hér við umræðuna. Þeirri hugmynd var hreyft hér um daginn að Framsfl. réði sér statista til að koma og fylla hér þingsætin. Það gæfi svona heldur skemmtilegra og betra yfirbragð. Maður gæti alla vega lifað í þeirri trú að flokkurinn vildi kynna sér það sem hér væri til umfjöllunar. Hið sama á að sjálfsögðu við um þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Mönnum finnst þetta eflaust vera það mikið smámál og málið í rauninni til lykta leitt, að það sé til lítils að ræða það. Þannig hefur þetta verið frá upphafi. Þannig hefur þetta mál verið rekið frá því að það fyrst kom fram í byrjun þessa kjörtímabils. Mér finnst mikil synd að hæstv. umhvrh. skuli ekki vera hér á svæðinu vegna þess að ég ætlaði að leyfa mér að vitna í orð hæstv. ráðherra. Reyndar ætlaði ég að gera það líka gagnvart hæstv. iðnrh., þó ég hafi skilning á því að hæstv. iðnrh. er að sinna störfum annars staðar og kemur von bráðar til þings. Mér var kunnugt um það og það var með okkar samþykki, þannig að það komi fram.

Ég hjó eftir svolitlu í máli hæstv. heilbr.- og trrh. Jóns Kristjánssonar áðan. Það var þegar hann benti okkur á hve fáir hefðu greitt atkvæði gegn frv. ríkisstjórnarinnar um álverksmiðjuna í Reyðarfirði við atkvæðagreiðsluna hér í gær. Aðeins átta þingmenn lýstu andstöðu við frv., aðeins átta þingmenn. Þar af eru sex þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þetta eru engin ný sannindi fyrir okkur. Kárahnjúkaflokkarnir eru í yfirgnæfandi meiri hluta á þingi. En það sem ég held að margir hljóti að hafa hugsað sem fylgjast með þessari umræðu, hvort sem er hér í þinghúsinu eða við sjónvarpstæki, er nauðsyn þess að breyta valdahlutföllum á Alþingi, vegna þess að þessi skipting á þinginu er ekki í nokkru samræmi við þann veruleika sem blasir við úti í þjóðfélaginu. Þar eru allt önnur hlutföll uppi, enda þorir ríkisstjórnin ekki að láta á það reyna, hún þorir ekki að láta á það reyna í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þetta mál fengi þar brautargengi. Það er staðreynd.

En hvað líður því að hv. formenn þingnefnda komi til þingsalarins?

(Forseti (GuðjG): Formönnum þingnefnda sem óskað var eftir hafa verið send boð um að nærveru þeirra sé óskað.)

Þá ætla ég að byrja á því að vitna örlítið í tvo hæstv. ráðherra. Það geri ég í eftirfarandi samhengi. Það er fagnaðarefni að hæstv. iðnrh. skuli kominn hingað til leiks því ég er í þann veginn að fara að vitna í orð hennar (Gripið fram í.) og reyndar annars ráðherra líka. Það væri nú gaman að fá hæstv. ráðherra til þess að taka þátt í þessari umræðu á eftir.

Aðdragandi þess að mig langaði til að leggjast í þessar tilvitnanir er það ótrúlega ábyrgðarleysi sem einkennt hefur málflutning Framsfl. í þessu máli, ótrúlega ábyrgðarleysi. Framsfl. auglýsti fyrir síðustu kosningar að hann væri bjargið í hafinu. Var það ekki svoleiðis? Kletturinn í hafinu? (Gripið fram í: Hann er það.) Hann er það, kletturinn í hafinu. Þar áttu að vera menn sem aldeilis kynnu að reikna, væru með bókhaldið á hreinu, talnaglöggir menn. Þessu hefur verið sveiflað að þjóðinni nú sem endranær. Síðan birtist formaður flokksins, hæstv. utanrrh., á flokksþingi Framsfl. með slíkum ólíkindum að eftir var tekið. Þar voru settar fram ýmsar fullyrðingar um efnahagsstærðir og tölur sem engan veginn standast. Þannig sagði hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., að vegna stóriðjuframkvæmdanna mætti ætla að svigrúm ríkissjóðs yrði 20--25 milljörðum meira en það annars hefði orðið. Þetta var á kjörtímabilinu. En hann gekk lengra. Hann lofaði skattalækkunum og útgjöldum sem samanlagt hefðu rýrt ríkissjóð um 15 milljarða á ári --- Er þetta ekki rétt? --- um 15 milljarða á ári. Og hvers vegna höfðum við 15 milljarða upp á að hlaupa? Það var einnig vegna stóriðjuframkvæmdanna.

En um hvað eru hagfræðingar að deila í þjóðfélaginu? Það er í fyrsta lagi hvort við getum snapað upp í lánin sem við þurfum að taka til að standa straum af kostnaði við framkvæmdirnar og hitt sem flestir hagfræðingar virðast sammála um, þ.e. þeir sem hafa ekki orðið fyrir þeirri ógæfu að vera settir í nefnd ríkisstjórnarinnar og undir hæl hennar og virðast breyta um skoðun við slíkt --- flestum hagfræðingum virðist sem sagt bera saman um að þessi atvinnustefna gefi þjóðinni minni arð, minni tekjur, en aðrar leiðir mundu gera. Við mundum búa við meiri velsæld, við værum líklegri til að búa við meiri velsæld ef við fylgdum annarri atvinnustefnu en þungaiðnaðarstefnu Framsfl. Þetta eru nú bara staðreyndir málsins og þessu fylgjumst við með í hverjum útvarps- og sjónvarpsþættinum á fætur öðrum þessa dagana og þetta erum við að lesa um í Viðskiptablaðinu og öðrum fagtímaritum, nú loksins þegar menn virðast vera að fá málið. Ég ætla að vitna í þessar umræður á eftir. Þetta er um ábyrgðarleysi Framsfl. í efnahagsmálum, ótrúlegt ábyrgðarleysi Framsfl. í efnahagsmálum, staðlausa stafi.

Síðan kemur að umhverfisþættinum. Þar er ég kominn að hæstv. iðnrh. og við erum svo lánsöm að hafa hæstv. ráðherra hér með okkur. Á flokksþingi framsóknarmanna var m.a. rætt um rannsóknir Orkustofnunar á Torfajökulssvæðinu, jarðhitarannsóknir. Hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. sátu þar fyrir svörum. Ríkisútvarpið var á staðnum og fylgdist með. Þar var iðnrh. spurður að því í fyrirspurnatíma hvort Alþingi tæki ákvörðun um að friðlýsa svæði án þess að fullkannað væri hvort á þeim væri að finna verðmæti svo sem vatnsföll eða jarðhita sem ríkinu væri nauðsynlegt að nýta. Það var spurt vegna umræðu um Torfajökulssvæðið og jarðhitarannsóknir þar.

Valgerður Sverrisdóttir iðnrh. sagði samkvæmt útvarpsfréttum eftirfarandi orðrétt, með leyfi forseta:

,,Að það sé betur yfirvegað og það sé eitthvert ákveðið ferli sem á sér stað áður en slík ákvörðun er tekin.``

Ákvörðun um hvað? Um að virkja? Um að spilla náttúrunni? Að menn þurfi að stíga varlega til jarðar áður en afdrifaríkar og óafturkræfar ákvarðanir eru teknar sem spilla náttúru Íslands? Nei, áður en ákvarðanir eru teknar um friðlýsingu svæða --- áður en ákvarðanir eru teknar um að friðlýsa svæði. Það er áhyggjuefnið hjá Framsfl.

Ráðherrann hæstv. heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Þarna hafa farið fram miklar rannsóknir af hálfu Orkustofnunar og þær rannsóknir verða að fara fram og eiga að fara fram. Það er skylda Orkustofnunar að rannsaka svæði sem þessi og það er í raun ekki búið að taka neina ákvörðun um nýtingu, en eins og ég segi, það er seinni tíma mál.``

Þarna erum við að tala um Landmannalaugasvæðið. Það er seinni tíma mál að ákveða hvað við gerum. En við þurfum að stíga varlega til jarðar í framtíðinni þegar við ákveðum að friðlýsa svæði. Menn mega nú aldeilis vara sig á því að vera of fljótir á sér þar. En þegar kemur að því að spilla náttúrunni þá er ekkert hik á Framsfl. Þá er ekki nokkurt einasta hik á Framsfl. Hver á að standa vaktina í Stjórnarráðinu fyrir hönd náttúrunnar? Skyldi það ekki vera hæstv. umhvrh.? Hvað sagði hæstv. umhvrh. í þessari sömu umræðu? Hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þó að svæði séu friðlýst að þá er ekki þar með sagt að þeim verði aldrei breytt um ókomna framtíð. Hins vegar njóta þau þá sérstakrar verndar og af því að þið voruð að tala hérna áðan um Kárahnjúkavirkjun að þá er það alveg ljóst að við þurftum að breyta þar friðlýsingu á Kringilsárrana til þess að hægt væri að fara í þá framkvæmd. Þannig að þó að svæði séu friðlýst þá þýðir það ekki að þau séu algjörlega ósnertanleg um alla framtíð.``

Og þá eru allir horfnir úr salnum náttúrlega. Mér finnst það ekki skrýtið. Skyldi fólki finnast það skrýtið að mönnum finnist óþægilegt að hlusta á þessa lesningu, þessar tilvitnanir í orð hæstv. iðnrh. og umhvrh. landsins?

[15:45]

Nú ætla ég, herra forseti, að gera hlé á máli mínu þar til þeir allir eru mættir í þingsalinn, formenn efh.- og viðskn., iðnn. Ég spyr: Hvar er formaður umhvn.? Og síðan væri ágætt að hæstv. ráðherrar væru hér einnig til staðar. En ég mun ekki segja eitt aukatekið orð fyrr en þessir aðilar eru komnir hér aftur í þingsalinn.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að kalla hæstv. ráðherra í salinn. Hæstv. ráðherra gengur nú í salinn og forseti mun sjá til þess að haft verði samband við þá aðra sem hv. þm. nefndi.)

Mönnum til upplýsingar þá er ég að bíða hér eftir því að formaður iðnn. og formaður umhvn. þingsins láti svo lítið að vera viðstaddur þessa umræðu.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill upplýsa hv. þm. um að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að hafa samband við hv. formann umhvn., Magnús Stefánsson, sem nú er í þinghúsinu og hv. formann iðnn., Hjálmar Árnason, sem einnig er í þinghúsinu, þannig að hv. þm. nær eyrum viðkomandi þingmanna.)

Það er ágætt að upplýsa hv. þm. og formann efh.- og viðskn. um að ég var að reifa þá hugmynd áðan að ráðnir yrðu statistar fyrir Framsfl. til að sitja hér í sætum vegna þess að menn virðast ekki hafa tíma til þess að fylgjast með umræðunni, jafnvel þótt þeir séu ábyrgðarmenn fyrir viðkomandi málaflokk. Þar vísa ég í formann umhvn. þingsins. Þetta er umhverfismál. Við erum að fjalla um mestu umhverfisspjöll í Íslandssögunni sem er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans hér. En það var svolítið athyglisvert að áðan var verið að vitna í hæstv. umhvrh. þjóðarinnar og afstöðu hæstv. ráðherra til friðlýstra svæða. Það var reyndar einnig vitnað í hæstv. iðnrh., um afstöðu hennar til friðlýsingar. (Iðnrh.: Afskaplega gáfulega að orði komist.) ,,Afskaplega gáfulega að orði komist,`` segir hæstv. iðnrh. Jú, það er svo. Það er nokkuð sem ágætir kjósendur ættu að íhuga í komandi kosningum, að hæstv. iðnrh. finnst þetta alveg einstaklega gáfulega mælt og mikil viska þarna á ferðinni. En ég er alveg tilbúin að gera hlé á ræðu minni ef þarf að bíða frekar eftir því að þessir hv. þm. komi hingað til þingsalarins. Ég mun ekki sætta mig við það að hér haldi áfram umræða um þetta mál án þess að fulltrúar eða fulltrúi umhvn. sé hér á svæðinu. Ég geri það ekki. En ég er tilbúinn að gera hlé á ræðu minni ef þess er óskað.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill freista þess að bíða augnablik vegna þess að hv. þm. Magnús Stefánsson, formaður umhvn., og hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður iðnn., eru hér í húsinu og verið er að gera ráðstafnir til að láta þá vita.

Forseti hyggst nú gera hlé á fundinum í fimm mínútur.)