Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 20:18:47 (4355)

2003-03-04 20:18:47# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[20:18]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða ítarlega um efnafræði, reyndar ætla ég ekki að hafa hér langt mál. Staðreyndin er sú að það skiptir máli hvernig búið er að mengunarvörnum. Eftir því sem mér er tjáð, því að ég hef leitað til sérfræðinga um þetta efni, var búið að semja við Norsk Hydro varðandi brennisteinsdíoxíð. Þá ætluðu menn að hleypa frá verksmiðjunni 230 tonnum miðað við 420 þús. tonna álbræðslu. Það ætti að samsvara 180 tonnum miðað við 320 þús. tonna álbræðslu.

Hins vegar er staðhæft við mig að það standi til að hleypa út 3.600 tonnum, sem er náttúrlega miklu meira en áður var ráðgert og tólfföld hámarksskilyrði Alþjóðabankans í þessu efni. Verksmiðjan kemur til með að menga miklu meira en talað hefur verið um fram til þessa. Þetta er hlutur sem mér hefði fundist þurfa að fá upplýst. Ég er ekki að ætlast til að hæstv. ráðherra sé með allar þessar tölur á reiðum höndum en mér finnst eðlilegt að sérfræðingar ráðuneytisins og Landsvirkjunar leggist yfir þetta og upplýsi þingið um hið rétta í þessu máli. Þetta er staðhæft við mig og mér finnast þetta mjög alvarleg tíðindi.

Ég vildi aðeins árétta það sem ég sagði áðan, að ástæður fyrir því að Alcoa tekur þessu tilboði Framsfl. um að nema land í öræfum Íslands fegins hendi eru annars vegar þær að hér er boðið upp á kostakjör í raforku, miklu ódýrari raforku en býðst í Bandaríkjunum og í Evrópu. Þetta er útsöluprís. Menn vissi ekki hvert þeir voru komnir þegar þeir heyrðu tilboð Finns Ingólfssonar sem fór fyrir sendinefnd Framsfl. út í heim að finna álviðskiptavin. Hin ástæðan er sú að hér sleppur fyrirtækið við að borga mengunarskatta fyrir CO2, fyrir koldíoxíð sem hleypt verður frá verksmiðjunni.

Ég vil aðeins árétta það sem ég hef sagt áður varðandi það sem út af borðinu stendur um ESA, eftirlitsstofnun hins Evrópska efnahagssvæðis. Við eigum eftir að fá upplýsingar, ekki aðeins frá eftirlitsstofnuninni heldur og frá íslenskum stjórnvöldum um hvaða gögn hafi verið reidd fram. Það er ámælisvert að þingið skuli ekki hafa verið upplýst um það.

Ég vil árétta að ýmsum spurningum í þessu máli er enn ósvarað. Það var ástæða þess að ég óskaði eftir því, fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í efh.- og viðskn. þingsins, að fenginn yrði óháður aðili til að fara yfir þau álitamál sem uppi voru. Þar er ég ekki að vísa í huglægan ágreining heldur staðreyndir. Ég benti á misvísandi svör Landsvirkjunar við spurningum, annars vegar borgarfulltrúa og hins vegar mínum. Þar koma fram mismunandi forsendur sem ég geri grein fyrir í nál. sem ég sem 2. minni hluti efh.- og viðskn. sendi iðnn. og er birt í skjölum þar. Ég vísa á að misvísandi upplýsingar eru á ferðinni í gögnum sem koma frá Landsvirkjun en skipta mjög miklu máli við útreikning á stofnkostnaðinum.

Sumitomo Mitsui bankinn japanski hefur oft komið hér við sögu í þessari umræðu. Menn kunna að líta svo á að hann hafi gert sjálfstæða úttekt á þessu máli. Það hefur hann ekki gert. Hann hefur farið yfir útreikninga Landsvirkjunar en aldrei kafað í það sem mestu máli skiptir, þ.e. sjálfar forsendurnar. Bankinn hefur ekki gert neina sjálfstæða rannsókn eða skýrslu. Hann hefur aðeins farið yfir það hvort rétt sé reiknað, tveir plús tveir séu fjórir o.s.frv. Bankinn hefur hins vegar aldrei farið í saumana á sjálfum forsendum málsins og aldrei gert sjálfstæða úttekt á málinu. Í umsögn hans um útreikningana eru settir ákveðnir fyrirvarar þar sem bankinn áréttar að hann taki ekki ábyrgð á þessum útreikningum Landsvirkjunar.

Ég rakti og hef rakið við fyrri umræðu þessa máls hvernig staðhæfingar hafa komið fram í þessu upplýsingaferli sem aldrei hafa verið nægilega botnaðar af hálfu stjórnvalda til að myndin skýrðist. Ég nefndi t.d. að í samskiptum við Reyðarál á sínum tíma hefði stjórnarformaður Hæfis skyndilega komið fram í fjölmiðlum og talað um 80 milljarða ábyrgð í tengslum við Reyðarál. Eftir því sem mér skilst mun þá hafa verið átt við að Norsk Hydro ætlaði að gangast í ábyrgð fyrir raforkusölu til 20 ára gegn því að fyrirtækið fengið aðgang að minnihlutaeign í fyrirtækinu. Ég hef síðan rakið hvaða hættur eru á ferðinni í slíku ferli enda komust íslensku lífeyrissjóðirnir góðu heilli hjá því að fjárfesta í því áhættufyrirtæki þótt hart væri að þeim lagt. Það er nokkuð sem ég þekki bara á eigin skrokki að fara inn í það áhættusama fyrirtæki. (Iðnrh.: Og fara með peningana úr landi.) Já, hæstv. iðnrh. efnir hér til umræðu um fjárfestingar lífeyrissjóða.

Það er mjög misjafnt hve langt lífeyrissjóðir hafa farið með fjármagn sitt út úr landinu. Sumir hafa gert það í talsverðum mæli, aðrir mjög litlum, það á t.d. við um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem á um 11% í erlendum bréfum. Það er langt undir því marki sem löggjafinn hefur sett um fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis. Ég er sammála hæstv. iðnrh. ef hann er að ýja að því að íslenskir lífeyrissjóðir eigi að fjárfesta hér innan lands. En það eiga þeir náttúrlega fyrst og fremst að gera á félagslega ábyrgan hátt. Ég vildi sjá fjármunum lífeyrissjóðanna í ríkara mæli en nú er varið til húsnæðismála og hef stutt að svo verði gert. ef hæstv. ráðherra er virkilega að gera því skóna að það hefði verið æskilegt að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í þessu áhættufyrirtæki sem Norsk Hydro samstarfið var á sínum tíma finnst mér það mjög óábyrg afstaða enda hefur hæstv. ráðherra síðan látið í veðri vaka að við hefðum sem betur fer komist úr faðmlögunum við Norsk Hydro. Reyndar hefði ég kosið að við hefðum forðast hin síðari faðmlögin, við Alcoa, sem hæstv. ráðherra lýsti sem eins konar tilhugalífi. Við erum bara búin að vera saman innan við ár --- þetta er ótrúlegt, sagði ráðherrann eða eitthvað á þá lund.

Það eru margir óvissuþættir í þessu máli og ég vil árétta það sem ég hef áður sagt um það efni. Hvað gerðist ef verkefnið færi 30% fram út áætlun? Þá værum við komin í tugmilljarða tap, mig minnir að það hafi verið 27 milljarðar í mínus, værum við komin 30% fram úr stofnkostnaði. Það þyrfti ekki annað en að fara 10--12% fram úr til að til að við lentum í mínus. Í nál. sem ég setti fram segir, með leyfi forseta:

,,Sem dæmi má nefna að fari stofnkostnaður virkjunar 30% fram úr áætlun, sem athuganir benda til að gætu orðið, helmingast þessi áhrif og hreint núvirði fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun yrði -27,2 milljarðar króna. Áhrif virkjunar á ferðaþjónustu geta vel orðið neikvæð og hugsanlega mjög neikvæð. Þriggja milljarða samdráttur í vinnsluvirði frá ferðaþjónustunni mundi gera þjóðhagsleg áhrif virkjunar og álvers neikvæð um 700 milljónir árlega.``

Þetta eru stærðirnar sem menn vísa í hér.

[20:30]

Ég furðaði mig svolítið á afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli. Samfylkingin hefur tekið mjög áþekka línu og ríkisstjórnin hefur tekið og ver þessar framkvæmdir í bak og fyrir. Í minnihlutaáliti iðnn. segir nú reyndar að þarna gefist einstakt tækifæri til byggðarannsókna og vísað er þar í áhuga erlendra manna á að fylgjast með því hvernig við högum okkur í þessum framkvæmdum. Síðan segir í umsögn Samfylkingarinnar frá efh.- og viðskn., með leyfi forseta:

,,Áhrif álvers í Reyðarfirði í tengslum við virkjun við Kárahnjúka munu til langs tíma styrkja hagkerfið. Þau munu birtast í auknum hagvexti, styrkingu útflutnings og bættu atvinnustigi, ekki síst á Austurlandi.``

Síðar segir:

,,Reynslan sýnir að til langs tíma er allajafna sterk, jákvæð fylgni milli útflutningstekna og þjóðartekna. Aukning á útflutningi af völdum álversins mun því efla þjóðartekjur.``

Enn er vísað í neikvæð áhrif af þessum framkvæmdum, en talið að það muni einvörðungu verða til skamms tíma.

Um þetta vil ég segja að hagfræðingar eru núna sífellt meira afgerandi að vara við þessum framkvæmdum og ítreka ruðningsáhrifin. Þeir segja líka að fari svo að atvinnumálastefna Framsfl. verði hér ríkjandi og meira en þriðjungur af efnahagsstarfseminni byggi á þungaiðnaði, sérstaklega áli, einum málmi, þá muni það auka óstöðugleika í hagkerfinu. Hagfræðingar hafa vísað til tveggja skeiða, annars vegar til samdráttarskeiðs og hins vegar til þensluskeiðs og mátað framtíðarsýn Framsfl. inn í þetta, þ.e. árin 1986--1988, 1986 og 1987 þegar þensla var mikil og hins vegar samdráttarskeiðið upp úr 1990, 1991, 1992 og 1993.

Niðurstaðan er sú þegar búið er að máta draumastefnu Framsfl. inn í þennan raunveruleika að sveiflurnar hefðu orðið enn þá meiri en raun bar vitni. Við erum því að draga úr stöðugleika með þessum ráðstöfunum. Það þýðir ekkert, herra forseti, að berja hausnum við steininn. Það er alveg rétt sem hæstv. utanrrh. segir. Ekki verður bæði sleppt og haldið. Annaðhvort fylgja menn stóriðjustefnunni, þungaiðnaðarstefnunni, eða kjósa að fara aðra leið, þar sem byggt er á fjölbreytni og ekki þessari einhæfni sem Framsfl. boðar.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Hæstv. ráðherra segir að farið sé að kvölda og fáir í þinghúsinu. Það er alveg rétt. Ég gæti alveg hugsað mér að standa hérna lengi kvölds. En ég veit sannast sagna ekki hvað það hefur upp á sig. Menn hafa sett hér fram ýmsar röksemdir og spurningar. Fæstum spurningunum er svarað. Eftir stendur náttúrlega sú meginkrafa sem við setjum fram um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er ekki of seint. Þessi framkvæmd er miklu, miklu stærri en svo að við getum leyft okkur að hugsa í þá veru. Það er ekki endanlega búið að ganga frá samningum. Það er ekki búið. Það eru engar slíkar skuldbindingar komnar og ríkisstjórnin á í rauninni að halda í heiðri þá einu skuldbindingu sem hún á gagnvart þjóðinni, þ.e. að virða lýðræðislegan rétt hennar. Um það verður greitt atkvæði hér á morgun.