Átraskanir

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:19:10 (4383)

2003-03-05 14:19:10# 128. lþ. 89.2 fundur 575. mál: #A átraskanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Eins og komið hefur fram er átröskun alvarlegur sjúkdómur með hárri dánartíðni og ekki mjög góðum horfum nema gripið sé til þeirra ráðstafana sem bestar þykja í heiminum, þ.e. teymismeðferðar sem krefst talsvert mikillar sérhæfingar.

Mér skilst að samkvæmt skýrslu sem gerð var í Bretlandi um meðferðarþörf og meðferðarúrræði fyrir sjúklinga með átraskanir, ef við heimfærum þær tillögur upp á Ísland, munum við þurfa slíkt átröskunarteymi með geðlækni og fleiri fagaðilum. Við gætu þurft um 13 manns miðað við þann fjölda sem býr í landinu. Við þyrftum ein tvö sjúkrahúspláss, eina göngudeild og svo þyrftum við dagdeild. Ég veit að það er nokkur áhugi á því, hjá meðferðaraðilum sem hafa komið að þessu hér á landi, að koma á fót einhvers konar slíkri dagdeild, t.d. með 8 plássum, í tengslum við öfluga göngudeild sem einnig veitti þjónustu.

Eins og ég sagði áðan er kostnaðurinn við meðferð af þessu tagi það hár að ef senda þarf sjúklinga til annarra landa til að fá hana þá held ég að það sé dýrara fyrir heilbrigðisþjónustu okkar en að henni verði komið á hér á landi. Ég vil því hvetja ráðherrann eindregið til að reyna að tryggja að þeir um það bil 10 aðilar sem veikjast á hverju ári fái slíka meðferð hér á landi.