Framkvæmd laga um leikskóla

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 16:04:06 (4424)

2003-03-05 16:04:06# 128. lþ. 89.11 fundur 585. mál: #A framkvæmd laga um leikskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Í leikskólalögum er kveðið á um réttindi leikskólabarna og jafnframt eru skýr ákvæði um að menntmrh. hafi lögbundna eftirlitsskyldu með leikskólum. Í 3. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Það gætir þess að farið sé eftir ákvæðum sem lög þessi og reglugerð með þeim mæla fyrir um, sbr. 6. gr.``

Í 15. gr. laganna eru skilgreind réttindi fatlaðra barna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Börn á leikskólaaldri, sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eiga rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga.``

Nú er ljóst að þessu ákvæði er ekki fullnægt innan leikskólans eins og þessi tæplega tíu ára gömlu lög frá 1994 kveða þó á um. Foreldrar fatlaðra barna hafa þurft að leita út fyrir veggi leikskólans með ærinni fyrirhöfn og miklu álagi á þau börn sem í hlut eiga. Fjölskyldan er dæmd til þess að vera á stöðugum þeytingi milli heimilis síns, á milli leikskólans og viðkomandi sérfræðings.

Í 6. gr. leikskólalaganna er sérstaklega vikið að gæðaeftirliti í starfsemi leikskólans og sú skylda sett á menntmrh. að setja reglugerð um öryggi barna og aðbúnað. Reglugerð með lögunum var sett í apríl árið 1995 og breytingar gerðar á henni árið 2002. Við lestur á þessum gögnum kemur fram að ráðuneytið skuli kalla eftir skýrslugerð en mér virðist minna fara fyrir eftirfylgni við að lögunum sé að fullu framfylgt og horfi ég þar sérstaklega til fatlaðra barna. Hér vísa ég í 14., 15. og 16. gr. reglugerðarinnar en þar er m.a. fjallað um gæðaeftirlit og skýrslugerð margvíslega. En ég staðnæmist við 22. gr. reglugerðarinnar sem mér sýnist vera í hreinni andstöðu við sjálfan lagatextann því þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Telji leikskólastjóri, leikskólakennari og forsjáraðilar að barn þarfnist sérstakrar aðstoðar eða þjálfunar til að geta notið leikskóladvalar sem best, ber þeim að hafa samráð um hvort unnt sé að leysa málið innan leikskólans og/eða hvort leitað skuli til ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. Verði aðilar sammála um að leita eftir slíkri þjónustu, er leikskólastjóra skylt að hafa þar forgöngu.``

Þarna eru þessi lagaákvæði orðin að samningstexta. Spurningar mínar til hæstv. menntmrh. eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,1. Hvernig hefur verið háttað eftirliti ráðuneytisins með framkvæmd laga um leikskóla, nr. 78/1994, með sérstöku tilliti til 15. gr. laganna þar sem kveðið er á um rétt fatlaðra barna til aðstoðar og þjálfunar innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga?

2. Hefur þessu lagaákvæði verið fullnægt?``