Framkvæmd laga um leikskóla

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 16:14:12 (4427)

2003-03-05 16:14:12# 128. lþ. 89.11 fundur 585. mál: #A framkvæmd laga um leikskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[16:14]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntmrh. fyrir svar hans. Hann vísar í kannanir og gæðaeftirlit sem fram fari og hvað hafi komið þar fram. Ég vil beina því til hæstv. menntmrh. að nú verði sérstaklega kannað hvort það sé rétt sem hér hefur komið fram í máli mínu, að lögum sé ekki framfylgt varðandi fötluð börn í leikskóla og að að ekki sé nægilega mikið kapp lagt á að framfylgja þessum lögum. Ég hef bent á það að í stað þess að þvinga foreldrana eða aðstandendur barnsins til að taka barnið til sérfræðings þá þurfi sérfræðingurinn að koma á staðinn. Þetta á að gera lögum samkvæmt. Reyndar finnst mér undarleg mótsögn í lagatextanum annars vegar og reglugerðinni hins vegar eins og ég vék að áðan og spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um það.

Nú setjum við í lög ákvæði um margvísleg réttindi og hér erum við að tala um réttindi fatlaðra barna. Mér finnst áhyggjuefni að það skuli kosta foreldra og aðstandendur nánast fullt starf að sjá til þess að þessum lögum sé framfylgt, að samfélagið standi við fyrirheit sín og lögboðnar kvaðir. Það kom fram á ráðstefnu sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð efndi til fyrir fáeinum vikum um félagsþjónustu að það væru fyrst og fremst þeir sem ættu sterka, duglega og trausta aðila á bak við sig sem nytu þeirra félagslegu réttinda sem væru lögboðin. Mér finnst þetta áhyggjuefni og mér finnst skorta á samráð innan stjórnsýslunnar til þess að tryggja að fólk fái notið þeirra réttinda sem eru lögboðin.