Staðlar og Staðlaráð Íslands

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 11:27:53 (4578)

2003-03-10 11:27:53# 128. lþ. 93.19 fundur 461. mál: #A staðlar og Staðlaráð Íslands# (heildarlög) frv. 36/2003, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[11:27]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um staðla og Staðlaráð Íslands frá iðnn.

Nefndin hefur fjallað rækilega um frv. og fengið til sín gesti og skriflegar umsagnir, eins og nefnt er á þskj. 1058.

Með frv. þessu er fest í sessi hlutverk Staðlaráðs Íslands og skýrt kveðið á um ótvírætt umboð þess til að staðfesta alþjóðlega og evrópska staðla en einnig íslenska staðla og til að annast gerð séríslenskra staðla og til að starfrækja fagstaðlaráð.

Staðlaráð Íslands er samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum. Nefndin gerir smávægilegar breytingar. Þær eru tvær. Annars vegar er sú breyting að í stað orðanna að aðild að Staðlaráði sé ,,heimil öllum hagsmunaaðilum`` komi að hún verði öllum heimil. Nefndin telur að í rauninni séu allir hagsmunaaðilar þegar kemur að stöðlum og hafi hagsmuna að gæta hvað varðar staðla. Hér er um ákveðna neytendavernd að ræða. Því gerir nefndin þá breytingu.

Hin breytingin er gildistökuákvæði. Í frv. er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2003, sem er liðinn eins og kunnugt er, herra forseti. Í stað þess er gert ráð fyrir að fram komi að lögin öðlist þegar gildi.

Undir nál. rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Pétur Blöndal, Svanfríður Jónasdóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Jóhann Ársælsson og Ólafur Örn Haraldsson. Nefndin mælir sem sagt með því að frv. verði samþykkt með tveimur áðurgreindum breytingum.