Vinnutími sjómanna

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:15:14 (4594)

2003-03-10 12:15:14# 128. lþ. 93.30 fundur 390. mál: #A vinnutími sjómanna# (EES-reglur) frv. 31/2003, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:15]

Frsm. samgn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá samgn. um frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða vinnutíma sjómanna.

Eins og fram kemur í þskj. 999 komu umsagnir frá fjölmörgum aðilum og nokkrir gestir komu á fund nefndarinnar þannig að vinnan var nokkuð ítarleg við þetta. Með þessu frv., herra forseti, eru lagðar til breytingar á sjómannalögum og lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa vegna innleiðingar tiltekinna EES-gerða sem varða vinnutíma sjómanna.

Það er skemmst frá því að segja, herra forseti, og rétt að taka það fram að þessar breytingar, að því er fram kom, rúmast innan gildandi kjarasamninga milli útgerða og stéttarfélaga.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með örfáum breytingum. Þar er aðallega um tæknilega útfærslu að ræða, orðalagsbreytingar, nema þó ein meginbreyting sem við töldum skipta afskaplega miklu máli, nefnilega að í frv. er gert ráð fyrir því að aldurslágmark til þess að stunda sjómennsku verði 16 ár. Nefndarmenn voru ekki tilbúnir að brjóta þá hefð sem hér hefur verið og leggja því til þá breytingu að aldurslágmarkið verði fært niður í 15 ár, þ.e. sama aldurslágmark og nú gildir. Ég held að ekki þurfi að fara mörgum orðum um það hvaða gildi það hefur fyrir áhugasöm íslensk ungmenni sem hafa um áratuga skeið getað hafið sjómennsku 15 ára, oft með foreldrum sínum, einkum feðrum. Það er svona efnislega meginbreytingin. Ég tel ekki ástæðu til að rekja þær hér en vísa í efnislegar útskýringar og breytingarnar á þskj. 999.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.

Undir nál. rita eftirtaldir hv. þm.: Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Jón Bjarnason.

Hv. þm. Kristján L. Möller og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.