Kjaradómur og kjaranefnd

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 15:05:32 (4610)

2003-03-10 15:05:32# 128. lþ. 93.42 fundur 683. mál: #A Kjaradómur og kjaranefnd# (heilsugæslulæknar) frv. 71/2003, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, með síðari breytingum, sem finna má á þskj. 1110.

Frv. þetta er flutt í tengslum við yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. í nóvember á síðasta ári um stöðu heilsugæslunnar í landinu. Í samræmi við yfirlýsinguna hafa heilsugæslulæknar óskað eftir því að ákvarðanir um laun og launakjör þeirra verði færðar undan kjaranefnd og þeir semji sjálfir um kjör sín eins og almennt tíðkast um launþega í þjónustu ríkisins.

Í frv. er því lagt til að ákvörðun launakjara heilsugæslulækna fari eftir ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en af því leiðir að Læknafélag Íslands mun fara með kjarasamningsgerð vegna heilsugæslulækna eins og annarra lækna.

Þó að frv. geri ráð fyrir að það öðlist gildi við birtingu í Stjórnartíðindum er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir því að núgildandi kjarasamningur fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og Læknafélags Íslands skuli ekki tekinn upp eða hann endurskoðaður í tilefni af setningu þessara laga enda er með honum komin á friðarskylda milli aðila. Af þessum sökum er lagt til að fram til ársloka 2005, eða til jafnlengdar gildandi kjarasamningi, gildi úrskurður kjaranefndar frá 15. október 2002, um laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna. Þykir slíkt eðlilegt þegar litið er til þess að í úrskurði kjaranefndar er tekið mið af kjarasamningi fjmrh. f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands, sbr. kafla VIII, lið 2 í úrskurðinum. Gert er ráð fyrir því að laun heilsugæslulækna hækki í samræmi við ákvæði í launalið kjarasamningsins.

Í samræmi við yfirlýsingu heilbrrh. er jafnframt gert ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða að fjmrn. taki upp viðræður við fulltrúa Læknafélags Íslands um þróun afkastahvetjandi launakerfis innan heilsugæslunnar en í úrskurði kjaranefndar er gert ráð fyrir því að hluti launa heilsugæslulækna fari eftir slíku kerfi. Leiði viðræðurnar til breytinga er gert ráð fyrir að þær geti komið í stað samningsins.

Gert er ráð fyrir því að viðræðum aðila verði lokið fyrir 31. desember 2003 en þó er heimilt að framlengja þær um allt að einn mánuð. Hafi engar breytingar verið ákveðnar fyrir nefnd tímamörk mun úrskurður kjaranefndar að þessu leyti gilda óbreyttur til ársloka 2005 eða, eins og áður segir, til jafnlengdar kjarasamningi fjmrh. og Læknafélags Íslands.

Þar sem launakjör heilsugæslulækna verða þau sömu fram til ársloka 2005 og ætla má að hefðu orðið samkvæmt úrskurðum kjaranefndar er ekki ástæða til að ætla að lögfesting frv. leiði til aukinna launaútgjalda ríkissjóðs á umræddu tímabili, þ.e. til ársloka 2005. Á þessu stigi er ekki hægt að segja fyrir um það hvort viðræður fjmrn. við Læknafélag Íslands um hinn afkastahvetjandi hluta úrskurðar kjaranefndar muni leiða til meiri kostnaðar við þann þátt en samkvæmt úrskurðinum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. þingsins.