Verðbréfaviðskipti

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:07:55 (4622)

2003-03-10 16:07:55# 128. lþ. 93.4 fundur 347. mál: #A verðbréfaviðskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv. 33/2003, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti. Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf um verðbréfaviðskipti.

Með nýjum lögum um fjármálafyrirtæki, sem afgreidd voru fyrir jól og tóku gildi 1. janúar sl., voru ákvæði um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana, sem áður voru í lögum um verðbréfaviðskipti, sameinuð í ein heildarlög. Hegðunarreglur aðila á verðbréfamarkaði og reglur um réttindi og skyldur þeirra sem heimild hafa til verðbréfaviðskipta eru hins vegar efni þessa frumvarps.

Þróun í löggjöf á sviði verðbréfaviðskipta er afar hröð. Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er byggt á grunni gildandi laga en ýmsar veigamikilar breytingar eru þó lagðar til.

Mikil umræða fer fram um ýmis grundvallaratriði réttarins á þessu sviði. Þetta á t.d. við um skilgreiningu á innherjaupplýsingum. Samkvæmt gildandi lögum teljast innherjaupplýsingar upplýsingar um útgefanda verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði sem ekki hafa verið gerðar opinberar en eru líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð fjármálagerninga ef opinberar væru. Þessi skilgreining er nú tekin óbreytt upp í frumvarpið. Hvenær upplýsingar eru líklegar til að hafa áhrif er að sjálfsögðu matskennt og endanlegt mat um það hvort svo sé heyrir undir dómstóla ef á reynir. Í athugasemdum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

,,Við mat á því hvort upplýsingar teljist til innherjaupplýsinga ber hins vegar að leggja til grundvallar hvort heildarmynd skynsams fjárfestis af markaðsverðmæti útgefandans hefði breyst ef hann hefði vitað um upplýsingarnar en ekki hvort upplýsingarnar hafi í raun haft áhrif eftir að þær voru birtar opinberlega.``

Samkvæmt þessu tæmir það ekki sök þótt það liggi fyrir að upplýsingarnar hafi ekki í raun haft áhrif á markaðsverð ef þær teljast engu síður almennt til þess fallnar að hafa áhrif á það. Þessi túlkun er afar mikilvæg að mati nefndarinnar. Í umsögnum sem bárust nefndinni var lagt til að skilgreiningu innherjaupplýsinga yrði breytt á þann veg að upplýsingarnar yrðu að vera líklegar til að hafa veruleg áhrif á markaðsverð. Var þessi tillaga studd þeim rökum að gildandi skilgreining gerði þeim sem í hlut ættu mjög erfitt fyrir að meta hvenær þeir væru með innherjaupplýsingar í höndunum og að breytingin mundi draga úr þeirri óvissu. Nefndin fjallaði ítarlega um þetta atriði og er það álit hennar að svo stöddu að í slíkri breytingu gætu falist óheppileg skilaboð til markaðarins auk þess sem breytingin gæti haft þau áhrif að dómstólar mundu horfa til þess hvort upplýsingarnar hefðu í raun haft áhrif á markaðsverð, óháð því hvort þær hefðu verið til þess fallnar en slíkt er andstætt tilgangi ákvæðisins.

Herra forseti. Ákvæði um yfirtökuskyldu aðila sem eignast ráðandi hlut í hlutafélagi hefur einnig verið mjög til umræðu. Hafa margir talið nauðsynlegt að lækka það hlutfall atkvæðisréttar sem leiðir til yfirtökuskyldu. Nú er það 50% og í frv. var gert ráð fyrir að það yrði 50%. Nefndin leggur af þessum sökum til að hlutfallið verði lækkað niður í 40%. Ljóst er að slíkt atkvæðamagn gerir hluthöfum í flestum tilvikum kleift að hafa ráðandi áhrif á stjórnun félaga. Jafnvel má leiða að því líkur að ráðandi áhrif skapist oftast við enn lægra hlutfall atkvæðisréttar. Ekki er gengið lengra í lækkun hlutfallsins að þessu sinni en nefndin telur engu síður ástæðu til að taka það til gaumgæfilegrar skoðunar hvort rétt sé að lækka það enn meira.

Breytingarnar eru kynntar í nál. og er í sjálfu sér ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þær að öðru leyti en því að ég vildi aðeins fara orðum um þær breytingar í bráðabirgðaákvæði frv. þess efnis að þeir sem hafa við gildistöku laganna yfir meira en 50% atkvæðisréttar að ráða eru undanþegnir tilboðsskyldunni. Það er rétt að taka skýrt fram að sama gildir um þá sem hafa gert samning um eignayfirfærslu atkvæðisréttar fyrir gildistöku laganna. Þannig hafa samvirkir samningar sem hafa verið gerðir fyrir gildistöku laganna ekki áhrif á tilboðsskyldu þeirra þrátt fyrir að þeir komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en eftir gildistökuna.

Með orðalaginu ,,enda auki hann ekki atkvæðisrétt sinn í félaginu umfram næsta verulega hlut`` er átt við að aðili verði tilboðsskyldur þegar hlutfall atkvæðisréttar hans nær næsta heila eða hálfa tug.

Virðulega forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nál. skrifa hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður og frsm., Hjálmar Árnason, Gunnar Birgisson, Árni R. Árnason, Adolf H. Berndsen og með fyrirvara hv. þm. Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir.