Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:44:07 (4628)

2003-03-10 16:44:07# 128. lþ. 93.26 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv. 55/2003, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:44]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Eins og segir í nál. eru markmið frv. að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og valdi ekki mengun. Enn fremur er því ætlað að draga skipulega úr myndun úrgangsefna eftir því sem unnt er og stuðla að endurnýtingu.

Það má eiginlega segja að í þessu frv. séu tvö meginatriði. Annars vegar er það vöktun urðunarstaða í allt að 30 ár og trygging fyrir því að það verði gert. Það er einfaldi hluti þessa máls. Hins vegar þarf að koma á móts við tilskipun Evrópusambandsins um að draga úr magni lífræns úrgangs sem fer til urðunar á ákveðnu tímabili, þ.e. á næstu 15--20 árum. Það getur orðið meira mál.

Spurningin snýst um hvernig við leggjum upp markmiðin í þessu. Eigum við að flokka lífrænan úrgang sér, reyna að koma honum í lóg og minnka hann eða eigum við að hafa hann með, urða hann með öðru og stuðla þar af leiðandi að hraðara niðurbroti?

Einn af gestum nefndarinnar benti réttilega á að ef lífrænum úrgangi væri blandað við hinn yrði niðurbrotið hraðara og gasmyndun mundi meiri. Það væri hægt væri að nýta annars vegar til raforkuframleiðslu eða sem eldsneyti á bíla o.s.frv. Hins vegar er sá kostur að flokka lífræna úrganginn frá og urða hinn hluta úrgangsins, þ.e. hið ólífræna. Þá tæki niðurbrotið kannski þúsundir ára. Spurningin er: Getum við nýtt þetta með því að blanda lífræna úrganginum saman við hinn úrganginn og framleitt gas til að fá verðmæti?

Ef við ætlum að flokka lífræna úrganginn sér, sem gefið er í skyn að komið gæti til í þessu frv., segir kostnaðaráætlun þeirra sem best vita, Sorpu og annarra, að slíkt gæti kostað allt að einum milljarði. Það yrði að tvöfalda sorphirðukerfið, þ.e. hafa tvær tunnur á hverju heimili, í hverju fjölbýlishúsi. Í dag er ekki pláss fyrir slíkt. Það yrði ekki bara að hafa tvöfalt kerfi heldur yrði að breyta sorpgeymslum híbýla og annað slíkt. Þetta er ekki bara kostnaður sem kemur á sveitarfélögin heldur íbúana líka. Ég held því að menn þurfi að fara varlega í þessu máli.

Ég fagna því að hér er bætt við ákvæði til bráðabirgða, svo að ég vitni í það, með leyfi forseta:

,,Frá gildistöku laga þessara til ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd laganna. Nefndin skal skipuð 6 mönnum, þremur samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og þremur samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra. Nefndin skal fylgjast með þróun meðhöndlunar úrgangs hérlendis og á hinu evrópska efnahagssvæði.``

Ég tel þetta mjög nauðsynlegt. Eitt eru lögin og annað reglugerðirnar, eins og hér hefur komið fram. Reglugerðirnar geta breytt hér öllu varðandi kostnað sorphirðingu og frágang á sorpinu.

Við eigum líka að líta til þess, ég óskaði þess milli 2. og 3. umr. að nefndin fengi skýrslu um það, hvernig málum væri háttað í Bandaríkjunum varðandi þessi mál og hvernig þeir taka á þessu, hvort þeir blandi úrganginum saman eða hvort þeir sorteri lífræna úrganginn úr o.s.frv.

Ég styð frv. og að fylgst verði með þessu og tel að til móts við það verði komið með ákvæði til bráðabirgða sem ég las upp áðan. Sveitarfélögin og umhvrn. geta þá fylgst með þessum málum. Lögin eru bara hálfur sannleikurinn. Síðan koma reglugerðirnar sem geta kostað bæði sveitarfélög og íbúa þeirra gífurlegt fé.

En allt er þetta gert í góðum tilgangi og partur af stefnu í sjálfbærri þróun og því styð ég þetta frv.