Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 18:02:32 (4635)

2003-03-10 18:02:32# 128. lþ. 93.39 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv. 40/2003, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[18:02]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Til að stemma stigu við vændi og hvers kyns sölu kynlífs í samfélagi okkar hafa Svíar fetað braut sem vakið hefur verulega athygli. Þeir hafa leitt í lög refsingar við því að kaupa vændi. Þannig hefur ábyrgðin á þeim skuggalega heimi sem fórnalömbum vændis er búinn verið sett þar sem hún á heima, á herðar þess sem býr til eftirspurnina, nefnilega kaupandans.

Þessi lagasetning hefur leitt til þess að götuvændi og vændi sem tengist mansali hefur minnkað stórlega og má segja að Svíþjóð sé ekki lengur viðkomustaður þeirra glæpamanna sem stunda verslun með konur til starfa í kynlífsiðnaði.

Sé það vilji Alþingis Íslendinga að senda skýr skilaboð til þegna sinna um að ekki beri að líða vændi á Íslandi þá samþykkja hv. þingmenn þá tillögu sem hér eru greidd atkvæði um.

Herra forseti. Ég segi já.