2003-03-11 00:00:00# 128. lþ. 94.37 fundur 375. mál: #A björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn# frv. 43/2003, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[24:00]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um frv. til laga um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.

Ég fagna því sérstaklega hvað þingheimur sýnir þessu máli mikinn áhuga, enda um gott mál að ræða.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði fyrsta heildstæða löggjöfin um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn. Í gildandi lögum er aðeins minnst á þessi hugtök eða önnur sambærileg á víð og dreif í ýmsum lögum. Markmið frumvarpsins er að draga úr óvissu sem verið hefur um réttarstöðu þeirra einstaklinga sem vinna við björgunarstörf innan viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita.

Nefndin ræddi ítarlega ýmis atriði frumvarpsins. Í 1. gr. þess kemur fram að lögin taki til björgunarsveita og björgunarsveitarmanna sem starfa innan viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita. Við ræddum sérstaklega hvað viðurkennd heildarsamtök björgunarsveita eru og vil ég einfaldlega vísa í þingskjalið hvað útskýringar nefndarinnar varðar. Einnig fórum við yfir hugtakið stjórnvöld í 2. gr. Við fórum líka yfir hugtakið gæsla. Við fórum yfir skyldu einstaklinga annars vegar og björgunarsveita hins vegar til þess að hefja leit og björgun og gæslu ef stjórnvöld óska þess og ræddum sérstaklega skylduákvæðið. Við fórum einnig yfir tryggingarnar sem björgunarsveitunum er m.a. skylt að kaupa fyrir félagsmenn sína. Að lokum ræddi nefndin sérstaklega mögulega refsiábyrgð björgunarsveitarmanna. En ég vil vísa til rökstuðnings nefndarinnar í þessu annars ágæta þingskjali sem frv. er á.

Björgunarsveitir eru í eðli sínu sjálfboðaliðasamtök sem byggst hafa upp hér á landi með beinum og óbeinum stuðningi stjórnvalda sem að sjálfsögðu njóta síðan góðs af með ýmsum hætti. Þeir opinberu aðilar sem bera ábyrgð á leit og björgun hafa gert samninga við sveitirnar og nú í seinni tíð er allt samstarf unnið á vettvangi hinna viðurkenndu heildarsamtaka.

Mat nefndarinnar er að ein heildarsamtök björgunarsveita geri allt skipulag leitar og björgunar í landinu einfaldara og skýrara. Allt er þetta til þess fallið að einfalda skipulagið og gera það skilvirkara, öllum til hagsbóta.

Við í nefndinni, og ég vil geta þess, herra forseti, að þetta er samhljóða álit frá hv. allshn., teljum að hér sé um mikla réttarbót að ræða fyrir björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, fyrir aðila sem starfað hafa í félögum og samtökum sem sjálfboðaliðar við slysavarna- og björgunarstörf og unnið þannig óeigingjarnt og mikið starf í þágu almannaheilla.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem getið er um á sérstöku þingskjali. Ég vil benda mönnum á að lesa útskýringar sem fylgja bæði breytingum og útskýringum nefndarinnar á þessum þingskjölum.