Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 14:43:33 (4734)

2003-03-11 14:43:33# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hafi bara lagt þessa ræðu mína út á þann veg sem honum sýndist, og sem heyrist auðvitað á spurningum hans. Það sem ég var að benda á er að hægt er að finna á vefnum hugmyndir um einkavæðingu eða einkafjármögnun á vegi milli Hólmavíkur og Gilsfjarðar, það væri hægt að finna arðsemismat á vefnum um þessa hluti og það væri mjög athyglivert.

Stefna Samfylkingarinnar er mjög hrein og mjög einföld. Hún er sú að jafnræði ríki milli landsmanna, sama á hvern hátt það er gert. Fyrst og fremst á jafnræði að ríkja á milli landsmanna. Og svo er ekki, hv. þingmaður, varðandi Hvalfjarðargöng. Við búum ekki við jafnræði á við ýmsa aðra landsmenn, þá sem sleppa við að fara undir Hvalfjörð, og þeir sem reka ferðaþjónustu á Vesturlandi búa ekki við jafnræði á við þá sem reka ferðaþjónustu á Suðurlandi. Og það er þetta sem ég er að gagnrýna. Þeir sem stunda vinnu af Vesturlandi og þurfa að fara um Hvalfjarðargöng búa ekki við jafnræði þeirra sem stunda vinnu frá Hveragerði og þurfa að fara til Reykjavíkur, það er verulegur mismunur þar á, eða frá Suðurnesjum. Það er þetta sem um er að ræða. Við í Samfylkingunni viljum jafnræði þegnanna til allra þeirra kosta sem þetta land býður upp á.