Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 16:49:46 (4746)

2003-03-11 16:49:46# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[16:49]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var auðvitað sem mig grunaði að það væri erfitt að henda reiður á því hvort og hversu mörg ný störf yrðu til með þessum hætti. Það vakti hins vegar athygli mína að þau munu flest falla til vegna undirbúnings þessara framkvæmda og þar séu teiknistofur, arkitektar og aðrir. Ég ætla svo sem ekkert að gera lítið úr því. Það var sem menn bentu á að það væri náttúrlega ekki eingöngu í Reykjavík sem menn gætu ekki ráðist á morgun í framkvæmdir með ýtum og skurðgröfum. Það þyrfti líka annars staðar að hefja undirbúning.

Af því að hæstv. ráðherra vildi segja sem svo að nú væri gamla tuggan komin upp, að ræða hér um málefni höfuðborgarsvæðisins, eru menn ekki að tyggja hér á gömlu í því sambandi. Hann segir einfaldlega það sem við okkur blasir, þ.e. að þegar hæstv. ráðherra opnar munninn hér um málefni borgarinnar virðist mér hann missa sjónar á meginatriðum. Fyrst var viðbáran sú að engin verkefni væru klár vegna þess að skipulagsmál borgarinnar væru í rúst. Að vísu er nú búið að snúa við þessari plötu, spila hina hliðina af henni og halda því fram að víst séu til nægir peningar, og meiri peningar til höfuðborgarsvæðisins en nokkru sinni fyrr. Ég velti fyrir mér hvor hlið plötunnar sé sú rétta og sanna en það skiptir svo sem engu máli.

Varðandi Reykjanesbrautina er ekkert meira um hana að segja. Hæstv. ráðherra viðurkennir þau sjónarmið mín að það að vera í 12 ár að dunda við tvöföldun hennar sé röng aðferð og eigi ekki við. Ég virði hæstv. ráðherra fyrir að viðurkenna að þessi sjónarmið sem ég hef haldið hér á lofti lengi vel eigi við rök að styðjast.