Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 16:52:12 (4747)

2003-03-11 16:52:12# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[16:52]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í samgn. þegar umræður fóru fram um Vesturlandsveg og Reykjanesbraut að vegna þess að það stæði á skipulagi Reykjavíkurborgar hefði ekki verið hægt að ráðast fyrr í tvöföldun Vesturlandsvegar. Hv. þm. kom í ræðu sinni áðan inn á að oft væri ekki farið skynsamlega að í framkvæmdum í vegamálum hér á Íslandi, ekki farið eftir röð eða forgangsverkefnum raðað eftir umferðarþunga eða þörfum. Ég tel t.d. að það hefði verið eðlilegra að byrja á Vesturlandsvegi þar sem fara um 20.000 bílar á dag og síðan að snúa sér að Reykjanesbrautinni. En vegna þess að skipulag Reykjavíkurborgar varðandi Hallsveg og aðkomu þar upp á Vesturlandsveg og líka vegna skipulagsmála við Halla og í Hamrahlíðarlöndum hefur ekki verið hægt að byrja á Vesturlandsveginum fyrr.

Í annan stað vildi ég segja þetta: Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og Lúðvík Bergvinsson koma inn á að það séu duldar árásir á stjórn Reykjavíkurborgar af hálfu sjálfstæðismanna hér í Reykjavík. Þeir vita það jafn vel og ég að gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar voru ekki tilbúin vegna þess að R-listinn tók þau út af skipulaginu, ef ég man rétt, fyrir nokkrum árum. Jafnframt Sundabrautin sem hefur verið í skipulagi mjög lengi og deilt er um hvort eigi að fara í hábrú eða svokallaða innri leið þar sem munar ekki nema 3 milljörðum. Það er athyglisvert að hlusta á borgaryfirvöld sem hafa verið að ströggla um þetta í nokkur ár segja nú að þau vilji fara í hábrú vegna þess að það sé fallegra. Á sama tíma er meiri hluti borgarstjórnar Reykjavíkur að lýsa því yfir að þau ætli að fara að loka leikskólum í einn mánuð til þess að spara 12 milljónir. En 3 milljarðar skipta ekki nokkru máli.