Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 16:54:29 (4748)

2003-03-11 16:54:29# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[16:54]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf svo sem ekki meira að segja. Þessi ræða hv. þm. segir allt sem segja þarf og um það sem ég nefndi, að menn gjörsamlega missa sig þegar rætt er um vegaframkvæmdir í Reykjavík og halda ræður sem ættu betur heima í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ef ég man rétt var hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson borgarfulltrúi Sjálfstfl. í Reykjavík um átta ára skeið, eða hvað? (GHall: Nei, varaborgarfulltrúi.) Varaborgarfulltrúi ... (GHall: Formaður hafnarstjórnar.) og formaður hafnarstjórnar lengi vel en kom nálægt borgarmálum og ég ætla bara að minna hann á að hann er ekki núna í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hér er hann ekki á borgarstjórnarfundi í Reykjavík. Hann má hafa sínar skoðanir á því eins og við allir hvaða leið er best yfir Sundahöfnina en það er út af fyrir sig ekki úrlausnarefni hér við þessa aðgerð.

Það sem fyrir liggur hins vegar er að Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið, kraginn Reykjanes, suðvesturhornið, getur nýtt alla þá milljarða sem þeim eru réttir á jafnskömmum tíma og önnur svæði landsins. Það er bara þannig.

Menn geta staldrað við einhver götuhorn hér eða þar og sagt að þetta sé svona eða hinsegin. Það sem mestu skiptir er að það er þörf fyrir fjármagn hér eins og raunar víðast annars staðar og það er hægt að nota það fjármagn á þeim tilskilda tíma sem ætlaður er, þ.e. á næstu 18 mánuðum, ef við erum þá að tala um þetta flýtifé sem hér um ræðir.

Af því að hv. þm. fór síðan í samanburðarfræði á Vesturlandsvegi annars vegar, millum höfuðborgarinnar og Mosfellsbæjar, og Reykjanesbraut --- ég veit ekki hvort hann átti við Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar eða hvað --- ætla ég að vona að það taki ekki 12 ár að ljúka Vesturlandsvegi upp í Mosfellsbæ eins og ráðgert er varðandi Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar yfir á Suðurnesin, í Reykjanesbæinn. Það væri a.m.k. mikið glapræði og við yrðum þá að breyta því, ný ríkisstjórn, eftir 61 dag.