Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:49:56 (4810)

2003-03-11 22:49:56# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:49]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki heyrt einn einasta ræðumann amast við efnisinnihaldi þessa frv. og þeim markmiðum sem liggja því að baki. Ég bið hv. þm. að benda mér á þann kollega sinn sem það hefur gert. Það er ástæðulaust að leggja lykkju á leið sína af þeim sökum og ráðast hér að samstarfsflokknum. En ég má láta mig það einu gilda. Það er ekki mitt vandamál heldur þessarar ríkisstjórnar. En það undirstrikar auðvitað hvílík uppstytta er komin í þetta ríkisstjórnarsamstarf. Það virðist eiginlega eingöngu lifa á lyginni einni saman og einhverri gamalli slímusetu og hinu líka að nú bindast menn tryggðaböndum um að víkja frá hinum almennu aðgerðum og til hinna sértæku í formi þess að gefa út kosningavíxla. Það er afskaplega gamalt í stjórnmálasögunni. Af því að hv. þm. er eldri en tvævetur getur hann vafalaust rifjað upp fyrir okkur hinum marga slíka víxla sem gefnir hafa verið út. Hér er allt eftir bókinni í þeim efnum. Svo sannarlega, herra forseti.