Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:51:47 (4812)

2003-03-11 22:51:47# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:51]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Við ræðum hér enn um þennan sjóð sem sjútvrh. eða sjútvrn. stofnaði. Það er verið að biðja um pening í sjóðinn til þess að geta farið að sinna þorskeldisverkefnum. Vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. e. hér áðan þegar hann talaði um neikvæðni samfylkingarmanna í sambandi við þessi mál, sjávarútveginn og annað, þá minni ég á það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson talaði um hér, að það voru samfylkingarþingmenn sem fyrstir lögðu fram mál um þorskeldi á hinu háa Alþingi, herra forseti. Þetta segi ég svona til upplýsingar. Mér finnst að þegar menn leggja fram slíka tillögu að þá sé það jákvætt og gott enda veit ég til þess að flutningsmenn tillögunnar hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð fólks úr atvinnulífinu við henni. En því miður hefur jákvæðnin í sjútvn. ekki verið nógu mikil til að taka hana út fyrr en þremur árum síðar. Það er náttúrlega hv. 1. þm. Norðurl. e. ljóst að þeirri nefnd hafa samflokksmenn hans stýrt. Þá gæti verið að neikvæðnin liggi frekar þar en hjá Samfylkingunni.

Vegna þeirra orða sem féllu um stöðu sjávarútvegsins og hvað hún hefði veði slæm 1988--1991 þá leyfi ég mér að benda á í þessari umræðu, herra forseti, að skuldir sjávarútvegsins voru 200 milljarðar á síðasta hausti og hafa aldrei verið meiri en þá, aldrei nokkurn tímann. Mörgum finnst nóg um þrátt fyrir allt sem gert hefur verið og það sem menn hafa haldið fram að sé gott fyrir sjávarútveginn.

Ýmislegt ræður því hvað veldur hagsæld þjóða. Það getur t.d. verið árferðið. Verði t.d. mikið hallæri, mikil frost og aflabrestur og annað þá getur það orsakað fátækt. Stjórnvöld geta verið mjög góð. En svo getur komið hallæri og erfiðleikar skapast í landinu. Þá verður hagsældin náttúrlega ekki eins mikil. Ég minnist þess að á sínum tíma hafði náttúrufyrirbærið El Niño mjög slæm áhrif á veiðar á smáfiski í Argentínu. Það hafði hins vegar þær afleiðingar hér að loðnumjöl hækkaði alveg gífurlega í verði. Þetta jók hagsældina hér. Það var t.d. á þeim tímum þegar Viðeyjarstjórnin var við völd. Við það að þetta hallæri reið yfir suðurhluta heimsins og við héldum áfram að veiða loðnu og loðnumjöl og fiskmjöl hækkaði þá jókst hagsældin hér. Það hafði ekkert með það að gera hvað forsætisráðherrann hét á þeim tíma því þó forsætisráðherrar hafi völd þá ráða þeir ekki veðri og vindum. Þetta þurfa menn að hafa í huga þegar verið er að ræða um efnahagsmál almennt. Ég vil benda á þetta í þessu samhengi, herra forseti.

Á tíma ríkisstjórnarinnar 1988--1991 fór verðbólgan niður fyrir tveggja stafa tölu, ef ég man rétt. Ég held að það sé alveg rétt, herra forseti. Ástæða þess voru hinir svokölluðu þjóðarsáttarsamningar sem skiptu miklu máli. Þá settust verkalýðshreyfing, atvinnurekendur og ríkisstjórn niður, tóku á sig rögg og lögðu hornstein að þeim stöðugleika sem hefur ríkt í efnahagslífinu síðustu árin. Þetta gerist ekki allt bara á einum degi, herra forseti. Á þetta vildi ég benda vegna þeirra orða sem hafa fallið í umræðunni um þennan sjóð sjávarútvegsins.

Ég vona að þetta muni koma að góðum notum og ítreka það að ég gleðst yfir því að menn skuli vera farnir að átta sig betur, og æ betur, á gildi rannsókna og þess að leggja fram fjármagn í rannsóknir og grunnrannsóknir og þróun því það hefur gjörsamlega skort á, enda sá Samfylkingin sinn kost vænstan fyrir þremur árum að leggja fram þáltill. um stofnstyrki sem er náttúrlega jafnjákvæð tillaga og tillagan um þorskeldið. En sumir virðast bara ekki taka eftir því hvað verið er að leggja fram af tillögum hér í þinginu, góðum og fínum málum.

Ég ítreka bara að lokum, herra forseti, að það hefði verið greið leið fyrir þingmenn Sjálfstfl. að leggjast á árar með samfylkingarmönnum þegar þeir lögðu fram þáltill. um þorskeldi, en núna kemst hún loksins út úr sjútvn. og það getur verið af ástæðum sem ég ætla nú ekki að fara út í hér sérstaklega. (Gripið fram í: Jú, jú.) Tíminn er orðinn það naumur.