Þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:41:04 (4823)

2003-03-12 10:41:04# 128. lþ. 97.92 fundur 495#B þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við erum að koma beint af fundi utanrmn. þar sem þetta mál var síðasta málið. Það mál sem hér er verið að ræða er í raun og veru þríþætt. Það er í fyrsta lagi tillagan sem hér er gerð að umtalsefni. Það eru þau hefðbundnu vinnubrögð að taka þingmannatillögur og frumvörp fyrir í lok þings og ég vek athygli á því að við erum að taka þessa tillögu til umræðu degi eða tveim dögum áður en þinginu á að ljúka og þá er vonlítið að hún náist fram. Í þriðja lagi snýst þetta mál um það hvort Alþingi er tilbúið að taka veigamikla umræðu, nefnilega þessa að taka ekki þátt í hernaðaraðgerðum við Írak, eða almennt. Tillagan er um það, annars vegar að leggjast gegn innrás og hins vegar að taka ekki þátt í hernaðaraðgerðum gegn Írak.

Ég lýsti því yfir hér í utanríkismálaumræðu, virðulegi forseti, að ég væri mjög ánægð með þá ræðu sem fulltrúi Íslands flutti í öryggisráðinu 19. febrúar af því að mér fannst það afdráttarlaus yfirlýsing varðandi innrás. Hins vegar minni ég á að það hefur verið deilt um það í samfélaginu hvað felist t.d. í ákvörðun ríkisstjórnar um að leggja til 300 millj., ef á þurfi að halda, vegna átaka og til NATO, og þeirri umræðu hefur ekki verið lokið hjá okkur. Við höfum ekki tekið umræðu um það á Alþingi hvort Ísland muni almennt standa utan hernaðaraðgerða, komi til þeirra, en það höfum við hingað til gert. Ég greiddi því atkvæði að taka þessa tillögu út þótt ég telji að fyrri hluta hennar hafi þegar verið fullnægt vegna þess að ég tel eðlilegt að við tökum umræðuna um þátt Íslands í hernaðaraðgerðum af eða á. Ég harma það að við skulum taka svo veigamikla umræðu í nefnd svo til á síðasta degi þingsins.