Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 21:21:37 (4871)

2003-03-12 21:21:37# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[21:21]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Frá stofnun Frjálslynda flokksins eða í rúm fjögur ár hefur Frjálslyndi flokkurinn verið leiðandi í því að halda uppi umræðu, m.a. hér á Alþingi og á opinberum vettvangi, um að okkur beri nauðsyn til að gjörbreyta stjórnkerfi fiskveiðanna. Við höfum ávallt haldið því fram að kvótabraskskerfið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa markvisst verið að festa í sessi, m.a. með kvótasetningu á smábáta, sé fjandsamlegt byggðunum og fólkinu sem þar býr og þar vill búa. Útgerðinni einni var með lögum veittur réttur til sölu á óveiddum fiski í sjónum og þar með var atvinnuréttur og búsetuskilyrði fólksins í sjávarbyggðunum sums staðar af íbúunum tekinn.

Þessi straumhvörf sem slitu í sundur hagsmuni fólksins og útgerðarmanna, sem þá urðu margir að stóreignamönnum, milljarðamæringum, hafa gjörbreytt þjóðfélaginu á síðustu árum. Aðrir auðmenn Íslands sáu að skjótfenginn gróða mátti höndla með auðveldum hætti með því að festa fé í óveiddum fiskinum í sjónum. Kvótinn sem varð að lögum nr. 38/1990 var gerður að einkasölueign þeirra sem höfðu fengið úthlutaðan aflakvóta úr sameiginlegri auðlind íslensku þjóðarinnar.

Sjómennirnir voru gerðir að leiguliðum nýríkra stóreignamanna sem fengu í leigu til sín hundruð milljóna úr sameign þjóðarinnar. Allt að 80% af verði fisksins sem leiguliðarnir veiddu rann nú beint í vasa forréttindaaðals nýríkra Íslendinga.

Í landinu lifa núorðið tvær þjóðir. Þeir ríku verða ofurríkir og finnst meira að segja sjálfsagt að þeir verði verðlaunaðir með ofurlaunum, tíföldum til fimmtánföldum mánaðarlaunum verkamanna, verktakagreiðslum, bónusum, hlutabréfagjöfum og fjallajeppum. Þetta eru miklir menn, hafnir yfir gagnrýni að þeirra eigin mati. Þetta er nýja þjóðin á Íslandi sem þarf erlenda leynireikninga og eignaraðild að bönkum sem starfa í erlendum skattaparadísum stóreignamanna og milljarðamæringa.

Svo er hinn hluti þjóðarinnar venjulegt fólk sem eyðir öllum sínum launum í að komast af og getur í besta falli komist í stutta sólarlandaferð með því að standa í röð eftir vildarkjörum.

En hvað vill Frjálslyndi flokkurinn gera til þess að efla byggð í landinu á nýjan leik?

Frjálslyndi flokkurinn vill leggja af í áföngum núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Flokkurinn hefur skýra stefnu varðandi það hvernig á að komast út úr kvótakerfinu, því stjórnkerfi sóunar og óréttlætis sem ríkisstjórnin hefur varið með kjafti og klóm. Frjálslyndi flokkurinn vill að frumburðarréttur þegnanna til fiskveiða verði viðurkenndur og að nýliðun í útgerð verði aftur möguleg. Horfið verði frá ríkisstyrktu kerfi forréttinda til eðlilegs samkeppnisumhverfis. Tryggja verður að sjávarbyggðir fái á nýjan leik að njóta aðliggjandi fiskimiða.

Til að vinna okkur út úr núverandi kvótabraskskerfi viljum við skipta fiskveiðiflotanum í fjóra aðgreinda útgerðarflokka og jafnframt að tryggja forgang á sóknarstýrðar fiskveiðar með strandveiðiflotanum með kyrrstæðum veiðarfærum. Frjálslyndi flokkurinn vill afnema kvótasetningu aukategunda í krókakerfinu og fækka kvótabundnum fisktegundum. Við viljum mismuninn milli hinna stóru og smáu burt, milli fiskvinnslu með og án útgerðar. Við viljum afnema kvótabrask og tryggja sjómönnum aftur atvinnuréttinn.

Ferskfiskafla á að verðleggja á fiskmarkaði og nauðsyn ber til að tryggja fullan fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu. Þeir sem gera út verða að sjálfsögðu að hafa aðgang til veiða og vita að hvaða reglum þeir ganga. Þeir eiga að hafa nýtingarrétt með veiðum en ríkið á að hafa leigu- og/eða tímabundinn sölurétt að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Braskið skal tekið af útgerðunum.

Frjálslyndi flokkurinn vill hefja hvalveiðar á nýjan leik á Íslandsmiðum. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að margfalda verðmæti sjávarafla með vinnslu og útflutningi á ferskum fiski strandveiðiflotans. Stefnumörkun Frjálslynda flokksins byggir á því að sjávarplássin fái forskot til nýtingar heimamiða. Það er stærsta byggðamálið.

Herra forseti. Það verður ekki sagt um Frjálslynda flokkinn að hann sé ekki með skýrar tillögur um hvernig eigi að breyta fiskveiðistjórnkerfinu, en við vitum að þeir sem hafa hagnast mest á kerfinu munu vinna gegn okkur af alefli og nota til þess ómælt fé að styrkja kvótaflokkana með lokaða flokksbókhaldið.

Frjálslyndi flokkurinn er þess fullviss að það sé öllum Íslendingum mjög mikils virði til framtíðar litið að landið haldist í byggð og að höfuðborgarbúum sem öðrum Íslendingum verði það ljóst að í því séu mestu verðmæti framtíðar þjóðarinnar fólgin. Baráttan fyrir byggðirnar verður að hafa forgang og í því býr í raun og veru framtíð unga fólksins.