Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 12:29:43 (4904)

2003-03-13 12:29:43# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[12:29]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú ekki sammála því að þetta sér í rangri röð og ítreka það að þó heimildin um að fara upp í allt að 300 þús. tonn sé almenn þá tekur hún ekki gildi, þ.e. við fjöllum hér um á eftir orkuöflun vegna 90 þús. tonna stækkunar. Síðar mun verða rætt um orkuöflun til frekari stækkunar sem sjálfstætt mál. Það eru algjörlega sjálfstæð mál.

Heimildarákvæði Norðuráls um stækkun eftir þessi 90 þús. tonn munu að sjálfsögðu ekki verða nýtt nema samningar náist um orkuöflun til þess. Það er vitað að Landsvirkjun hefur verið að skoða neðri hluta Þjórsár. Það er vitað að Orkuveita Reykjavíkur er að skoða mögulega orkuöflun á Hellisheiði. Og það er vitað líka að Hitaveita Suðurnesja hefur verið að skoða Trölladyngju o.s.frv. Þetta eru allt mál sem munu koma upp síðar og hin almenna heimild til Norðuráls verður ekki nýtt nema ljóst sé að orkuöflunin verði með viðunandi hætti.

Hv. þm. hafði í ræðu sinni miklar efasemdir um vægi áls í efnahagslífi okkar. Ég spyr því á móti hvort hv. þm. telji það ekki geta aukið stöðugleika í efnahagslífi okkar að það skuli þó vera a.m.k. tvær meginstoðir undir því, þ.e. sjávarútvegur og ál, og hvort það séu nú ekki meiri líkur á stöðugleika að hafa tvær stoðir frekar en bara eina stoð sem sveiflast upp og niður, bæði vegna markaðsástands og ekki síður vegna náttúrulegra ástæðna.

Hv. þm. efaðist um að þetta væri góður bisness. Það hefur nú komið í ljós vegna reynslunnar, sem þó er ekki löng, af Norðuráli að bæði virðist Landsvirkjun hafa haft ágætar tekjur af því, bara haft hagnað og grætt á því máli og fyrirtækið sjálft skilað ágætum hagnaði. Báðir þessir aðilar hafa með öðrum orðum haft hag af þessu, að ekki sé talað um þjóðarbúið og Vestlendinga sjálfa, með fjölmörgum störfum, samanber hina miklu ánægju Vestlendinga upp til hópa, allra sveitarfélaganna, þó eflaust séu til einhverjar raddir sem finna ýmislegt að starfsemi Norðuráls á Grundartanga. En sveitarfélögin í heild luku upp einum munni lofi á þessa starfsemi.