Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:47:59 (4913)

2003-03-13 13:47:59# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda sem tók þetta mál á dagskrá í þinginu. Ég held að það sé mjög mikilvægt enda hefur komið mjög skýrt fram í fréttum að staða bænda er afskaplega misjöfn og ljóst er að skoða þarf leiðir sem geta orðið til aðstoðar þar sem nauðsyn krefur.

Flestum hefur borist til eyrna að þeir sem framleiða þetta svokallaða hvíta kjöt hafa verið í gríðarlegri samkeppni sem hefur í sumum tilfellum verið borin uppi með aðferðum sem ekki hafa verið skýrðar. Fyrirtæki sem hafa jafnvel verið í greiðslustöðvun hafa getað boðið fram kjöt sem hefur verið með allt öðrum framleiðslukostnaði en eðlilegt getur talist. Mér finnst ekki hafa komið neitt fram hjá hæstv. landbrh. hvaða leiðir á samkeppnisgrundvelli ráðuneytið vill skoða til þess að geta tryggt það að eðlileg samkeppni ríki á markaðnum, og þá er ég að meina samkeppni milli framleiðenda.

Einnig er ljóst að aðrir kjötframleiðendur, eins og sauðfjárbændur, eiga í miklum erfiðleikum og þó að margt ánægjulegt sé að gerast í kringum þá, eins og í sambandi við bændagistingu og ýmsa aðra starfsemi, er það náttúrlega engan veginn nóg. Staða þessara bænda er mjög erfið í dag og það þarf hæstv. ráðherra einnig að taka til sín. Auðvitað getur hæstv. ráðherra ekki bjargað öllu en mér finnst ekki heldur hægt að vísa öllu beint til bændanna sjálfra og segja: Þið hafið lögin og þið eigið að bjarga ykkur. Það þarf líka að passa upp á að samkeppnisumhverfið sé eðlilegt.