Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:21:32 (4957)

2003-03-13 17:21:32# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:21]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Reynsla okkar liggur alveg fyrir. Raunin er sú að við ráðum ekki við skriffinnskuna á einu né neinu sviði. Hún vex okkur yfir höfuð. Við höfum hér t.d. stofnun sem átti að hafa tvo til þrjá menn sem kostar núna 600 millj. á síðustu fjárlögum. Allur okkar eftirlitskostnaður hefur vaxið langt umfram annað í okkar þjóðarbúskap. Ég hef þetta til marks um þróunina. Ég get ekki sannað þetta og ég sagði líka að sumir teldu mig ýkja þetta. Ég get ekki sannað mál mitt. En reynsla okkar er þessi og hví ætti eftirlitskostnaðurinn með þessum þætti að verða eitthvað öðruvísi en alls staðar annars staðar?

Ég hef, herra forseti, ekki verið að gera neinn tortryggilegan og það er alveg ástæðulaust af hæstv. ráðherra að segjast ekki líða það. Ég hef ekkert sagt það. Ég harma að hinn réttkjörni aðili, Alþingi, skuli ekki taka á því máli sem er höfuðnauðsyn fyrir landsbyggðina. Það er jöfnun raforkuverðsins. Ég harma að það skuli ekki gert á þessum vettvangi. Ég harma það og tel það mjög mikil mistök.