2003-03-14 03:10:55# 128. lþ. 100.40 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[27:10]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði að menn hefðu skrökvað því að þjóðinni annars vegar að hún ætti auðlindina og hins vegar haft í gangi aðferðir sem afhenda þessa eign fullkomlega til ráðstöfunar eins og hverja aðra einkaeign. Mér hefur alltaf fundist að með því væri verið að skrökva að þjóðinni. Varla er hægt að tala um það sem þjóðareign sem þannig er með farið. Frá upphafi, frá því að kvótakerfið var sett á, þá byrjaði þetta strax. Þá töluðu menn um að það ætti aldeilis ekki að afhenda mönnum þetta til eignar. Þetta átti að vera tímabundið.

Síðan þegar framsalið var leyft var talað um þjóðarauðlindina og að þjóðin ætti þetta saman og svo smám saman fór að renna upp fyrir þjóðinni hvers konar bull þetta var. Búið var að afhenda mönnum fullkomlega rétt til þess að kaupa og selja eins og þeir ættu hana sjálfir og svo var haldið áfram að kalla þetta þjóðareign. Svo ætla þeir menn sem vilja hafa þetta svona að halda því áfram að tala um þjóðareign en hafa kerfi sem gengur út á það að menn eigi þetta og megi kaupa og selja eins og þeim sýnist. Hvað er þetta annað en fals? Hvað er þetta annað en skrök? Menn geta kallað þetta eitthvað annað, þeir sem svo kjósa. En ég kalla það fals og skrök.