Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 14:38:53 (5106)

2003-03-14 14:38:53# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[14:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við þurfum nú ekki að þrasa um það hér, einn fyrrv. og bráðum tveir fyrrv. samgrh., hvernig grundvallarfyrirkomulagið er í þessum efnum. Það er jú þannig að rekstur hafnanna í landinu er í grundvallaratriðum samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin annast um reksturinn, halda hafnirnar, en fá til þess fjárstuðning frá ríkinu. (Samgrh.: Eiga hafnirnar.) Ríkið setur lögin og starfsskilyrðin og leggur mikið fé í púkkið. Það rekur þjónustuna, rannsóknirnar o.s.frv. Þetta vitum við bara alveg hvernig liggur fyrir.

Það sem við erum auðvitað að vara við er að menn haldi inn á þessa braut og það virðist vera að hæstv. samgrh. deili að mörgu leyti áhyggjum með okkur af því að við megum ekki missa þessa almannaþjónustu og sérstaklega ekki minni hafnirnar (Gripið fram í: Stendur ekki til.) sem veikar standa inn í þetta samkeppnisumhverfi, en þar byrja vandræðin. Ef opnað verður fyrir að þetta verði á tvenns konar formum, hvað gerist þá? Þá koma kærurnar. Þá koma menn með samkeppnislögin. Og þá byrja menn að brjóta þetta undir sig, að þetta sé eins og hver annar atvinnurekstur í hagnaðarskyni og það megi ekki vera mismunun og ríkið megi ekki vera með þetta og sveitarfélögin ekki vera með hitt, við vitum alveg hvar það endar. Vörnin er fólgin í því að skilgreina þetta að lögum og í reynd sem opinbera þjónustu, almannaþjónustu, hluta af hinu opinbera stoðkerfi. Það megum við enn þá samkvæmt bæði evrópskum og alþjóðlegum reglum. En um leið og við förum að fara með þetta yfir í blandað fyrirkomulag, þá koma til sögunnar alls konar vandamál.

Það er þetta sem engan veginn hefur verið hugað nógu vel að, herra forseti, að mínu mati í frv. og hæstv. ráðherra hlýtur að kannast við það úr störfum sínum að það er ekkert einfalt mál að eiga við þetta ef menn á annað borð missa sig af stað í þennan leiðangur og þá er betur heima setið en af stað farið ef menn sjá ekki fyrir þá hluti sem geta komið upp í framhaldinu, herra forseti. Við eigum því bara ósköp einfaldlega ekkert að vera að fara inn á þessa braut.