Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 15:57:31 (5113)

2003-03-14 15:57:31# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þetta svar. Það er gott til þess að vita að iðnn. skuli hafa litið á þessa undirskriftarlista og skuli hafa látið sig einhverju skipta sjónarmið þeirra 400--500, ef ég man rétt, sem skrifuðu undir þessa lista. Og þó svo að það sé gefið upp hér að Landsvirkjun hyggist færa línurnar úr byggð, þá er það í sjálfu sér gott og gilt. En það verður líka að fara að taka tillit til þess að á ákveðnum stöðum á landinu þar sem leggja þarf háspennulínur, þá verður auðvitað að taka afstöðu til þess hvort ekki eigi að skylda framkvæmdaraðila á borð við Landsvirkjun til að leggja háspennulínur í jörð. Því að með þessari gífurlegu aukningu á raforkuframleiðslu til stóriðju erum við að hætta á það að háspennulínur vaði hér þvers og kruss um allt hálendið.

Ég minni á það sem kom fram í umræðunni um álverið í Reyðarfirði, þar sem allar vísbendingar eru um það að jafnvel innan tíu ára verði komnir háspennustrengir, tvær línur, yfir miðhálendið. Þá verð ég bara að segja það, herra forseti, að það skiptir verulegu máli að pólitísk afstaða komi til jarðstrengja héðan úr þessum sölum og það er ekkert verra að nota þetta mál sem hér er til umfjöllunar til þess að gefa út þá pólitísku stefnumörkun. Það hlýtur að vera eðlileg krafa þó það sé að einhverju leyti dýrara þegar verið er að leggja háspennulínur af þessu tagi og fjölga þeim svo mikið sem raun ber vitni, að gefin verði út stefnumörkun um að þær skuli, a.m.k. þar sem þær liggja um byggð eða viðkvæm svæði, grafa í jörð.